Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Næringarfræði fyrir fróðleiksfúsa í nýrri bók
Miðvikudagur 19. desember 2007 kl. 13:02

Næringarfræði fyrir fróðleiksfúsa í nýrri bók

Út er komin bókin Lífsþróttur – næringarfræði fróðleiksfúsra. Höfundur bókarinnar er Ólafur Gunnar Sæmundsson, næringarfræðingur. Ólafur er mörgum suðurnesjamönnum kunnur enda fæddur og uppalinn á Suðurnesjunum eða nánar til tekið suður í Garði. Í tilefni af útgáfu bókarinnar tókum við hús á Ólafi og forvitnuðumst eilítið um tilurð og efnisinnihald bókarinnar.

“Árið 1999 gaf ég út bókina Lífsþróttur – næringarfræði almennings. Sú bók hefur verið ófáanleg um langt árabil. Og þegar mér bauðst kennsla í næringarfræði við Háskólann í Reykjavík ákvað ég að láta slag standa og ráðast í endurútgáfu bókarinnar. Nýja bókin er mjög ólík þeirri fyrri og sem dæmi má nefna að þá eru fjórir nýir kaflar þar sem meðal annars orkuefnunum eru gerð rækileg skil sem og hverju einasta vítamíni og steinefni. Þess utan er bókin öll í lit og hana prýða hátt í 300 ljósmyndir sem tengjast hinum mörgu viðfangsefnum sem tekin eru fyrir í bókinni.”

En hvað finnst Ólafi um mataræði þjóðarinnar, fer það ekki sífellt versnandi?
“Stundum mætti ætla að allt væri að fara til andskotans þegar mataræði landans er annars vegar. Og þeir eru ófáir sem fullyrða að mataræði íslensku þjóðarinnar fari sífellt versnandi og horfa jafnvel til fortíðar með ákveðinni glýju í augum og fullyrða jafnvel að mataræðið í “gamla daga” hafi verið mun heilbrigðara en það sem okkur býðst í dag.”

Já, en er það ekki rétt. Er til að mynda sykurneyslan ekki sífellt að aukast?
“Varðandi sykurneyslu að þá er það alveg rétt að sumir borða meiri sykur en talið er heppilegt og þá ekki síst börnin okkar og unglingar enda er sykurlöngunin almennt mest á á þeim aldri en síðan dregur úr löngun á dísætri fæðu og löngunin í prótein- og fituríkan mat eykst. Ef ég má nefna dæmi um mig sjálfan að þá afþakka ég oftast nær þegar börnin mín bjóða mér upp á sykurnammi en þess í stað þygg ég gjarnan fituna sem þau skera burt af kjötmetinu sínu. Nokkuð sem manni hafði ekki dottið í hug að gera þegar maður var barn að aldri. Staðreyndin er sem betur fer sú að allt er í hófi gott og það á bæði við neyslu sykurs og fitu. Einnig er mikilvægt að hafa í huga að orkuþörf manna getur verið mjög misjöfn sem merkir að neysla sem hentar einum þarf ekki endilega að henta öðrum. Á þetta er bent ekki síst í ljósi oft einsleitrar umræðu þar sem umfjöllunin einskorðast allt of oft við svo kallað “megrunarfæði” og boð og bönn þar sem fólk fær þau skilaboð að mest af því sem það er vant að borða sé óhollt og jafnvel stórskaðlegt.”

En hvað þá með þá fullyrðingu að mataræði íslensku þjóðarinnar fari sífellt versnandi. Stenst hún þá ekki?
“Nei, í heildina tel ég svo ekki vera. Þess skal getið að á vissan hátt hefur mataræði íslendinga batnað á undanförnum árum. Sem dæmi má nefna að þá höfum við aukið neyslu okkar á ávöxtum og grænmeti, þó þar megi enn betur gera. Einnig höfum við dregið úr drykkju sykraðra gosdrykkja en þess í stað aukið vatnsdrykkju og neysla fitu hefur minnkað. Eins og ég minntist á áðan að þá eru þeir ótrúlega margir sem telja að mataræði íslensku þjóðarinnar hafi hrakað mikið frá því sem áður var. Því er öðru nær og þar sem maður er kominn hátt á fimmtugs aldurinn er auðvelt að líta nokkuð langt til baka og rifja upp hvað þá var algengast á borðum. Í mínum foreldrahúsum var til að mynda mikið bakað og margs konar bakkelsi stóð manni ávallt til boða með kaffinu, hvort heldur um var að ræða miðdegis- síðdegiskaffi eða kvöldkaffi. Unnar kjötvörur eins og bjúgu voru oft á boðstólum, sem og fiskur steiktur upp úr raspi og smjöri og ekki má gleyma gómsætu kótelettunum sem runnu ofan í mann eins og bráðið smjör. Ávexti fékk maður afskaplega sjaldan og þaðan af síður grænmeti. Og varðandi sykurinn að þá neytti maður hans í ríkum mæli í formi bakkelsins og þegar maður fékk sér skyr eða súrmjólk sykraði maður þessar gaddsúru afurðir að sjálfsögðu ríkulega. En þess má geta að neysla sykurs hér á landi per mann hefur haldist nánast óbreytt í um 50 ár.”

Ertu þá kannski að segja að það sé bara allt í lukkunnar velstandi hjá íslendingum þegar kemur að mataræðinu?
“Að sjálfsögðu ekki! En við skulum hafa hugfast að næringarfræðin snýst ekki um boð og bönn heldur fjölbreytni og ákveðna hófsemi og þrátt fyrir að ýmislegt hafi færst til betri vegar er ljóst að margir mættu bæta mataræði sitt. Margir borða því miður meira en þörfin segir til um á meðan aðrir borða minna en þörf er á. Ástæður þessa geta verið margar og oft er um flókið samspil að ræða sem tengist umhverfi, erfðum og samfélagslegum þáttum.”

En hvað ætlar næringarfræðingurinn svo að gæða sér á á aðfangadagskvöld?
“Á aðfangadagskvöld gæðum við fjölskyldan okkur á rjúpum  með fjölbreyttu meðlæti og bragðmikilli “rjúpusósu”. Að sjálfsögðu verður svo góðgætinu skolað niður með eðaldrykk okkar íslendinga það er malti og appelsíni. Og í eftirrétt verður svo boðið upp á heimatilbúinn tobleroneís.”

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024