Líflegt starf hjá hernum
„Hjálpræðisherinn er alþjóðleg evangelísk hreyfing, hluti af hinni almennu kristnu kirkju. Boðskapurinn grundvallast á Biblíunni. Þjónustan er knúin af kærleika Guðs. Verkefnið er að boða fagnaðarerindi Jesú Krists og í hans nafni mæta þörfum fólks án mismununar,“ segir í alþjóðleg yfirlýsingu Hjálpræðishersins (The Salvation Army Mission Statement) um starfsemi Hjálpræðishersins. Í Hjálpræðishernum á Íslandi eru þrír flokkar (söfnuðir), á Akureyri, í Reykjanesbæ og Reykjavík. Aðalskrifstofa Hjálpræðishersins á Íslandi og í Færeyjum er staðsett í Reykjavík. Hjálpræðishernum á heimsvísu er skipt niður í umdæmi en Hjálpræðisherinn á Íslandi er hluti af umdæminu Ísland, Noregur og Færeyjar. Svæðisforingi á Íslandi er Hjördís Kristinsdóttir.
„Við höfum aðeins verið að upplifa það að fólk haldi að Hjálpræðisherinn sé ekki lengur með starfsemi í Reykjanesbæ en hér erum við og það er ýmislegt í gangi,“ segja hjónin Hjördís Kristinsdóttir og Ingvi Kristinn Skjaldarson sem hafa helgað sig starfi Hjálpræðishersins síðustu ár. Þau eru bæði flokksleiðtogar hjá Hjálpræðishernum. Hjördís er að auki svæðisforingi eins og segir að framan og Ingvi Kristinn er umsjónarmaður fasteigna. Þau hafa síðustu ár beint sjónum sínum að starfi Hjálpræðishersins í Reykjavík en hafa núna nýlega einnig tekið að sér umsjón starfsins í Reykjanesbæ. Með þeim í starfinu eru þau Hannes Bjarnason og Birna Dís Vilbertsdóttir sem einnig eru flokksleiðtogar en verkefnastjóri barna-, unglinga- og fjölskyldustarfs er Linda Björk Hávarðardóttir.
Þau Hjördís og Ingvi benda á að núna á tímum mikils atvinnuleysis þá hefur fólk örugglega nægan tíma og hjá Hjálpræðishernum er margt í boði sem fólk getur tekið þátt í.
Myndarlegt starf í fataflokkun
Þegar blaðamaður Víkurfrétta heimsótti Hjálpræðisherinn í Reykjanesbæ, sem er til húsa að Flugvallarbraut 730 á Ásbrú, þá var þar myndarlegur hópur kvenna í fataflokkun. Þær mæta alla virka daga í Herinn og flokka fatnað fyrir fata- og nytjamarkaðinn Hertex sem er rekinn í Reykjavík. Þær eru einnig með markað í húsi Hjálpræðishersins á Ásbrú sem í augnablikinu er rúmgóður og hefur lagt undir sig samkomusal Hjálpræðishersins. Þessa dagana er þó verið að innrétta verslunarrými í húsinu þar sem Hertex verður til húsa í náinni framtíð. Búðin verður opin frá klukkan 16 til 18 á föstudögum og klukkan 12 til 16 á laugardögum.
Konurnar mæta alla virka daga á milli klukkan 10 og 14 og flokka fatnað en einnig til að ræða málin yfir kaffibolla en lögð er áhersla á að hver vinni á sínum hraða og hafi ánægju af því sem tekist er fyrir hendur hverju sinni. „Þetta á ekki að vera akkorðsvinna, þetta á líka að vera samfélag þar sem er gott að koma saman og eiga samfélag hver við aðra,“ segir Hjördís og bætir því við að auðvitað séu karlar líka velkomnir.
Prjónahópur hittist í Hjálpræðishernum á þriðjudögum klukkan 19:30 til 21:30 með handavinnuna sína. „Þar, líkt og í fataflokkuninni, er hugmyndin að fólk eigi þetta samfélag að geta spjallað um daginn og veginn. Á þriðjudögum, í hádeginu, er líka það sem er kallað bæn og matur. Það er bænastund þar sem við syngjum líka saman og fáum okkur svo að borða. Maturinn kostar 500 krónur en ef maður á ekki þann pening þá borðar þú bara frítt. „Það er engum úthýst frekar en venjulega hjá Hjálpræðishernum,“ segir Hjördís jafnframt.
Unglingastarf á Ásbrú í samstarfi við KFUM&K
Hjálpræðisherinn í Reykjanesbæ er kominn í samstarf við KFUM&K og verður með unglingastarf á Ásbrú á miðvikudagskvöldum frá klukkan 20:00 til 21:30. „Við byrjum á að vera með þennan hitting fyrir unglingana en ef við fáum einhvern til að sjá um mat á undan, þá munum við bjóða upp á það. Það búa núna um 3.000 manns á Ásbrú þannig að það hljóta að vera skrilljón krakkar hérna sem eru til í svona starf,“ segja þau Hjördís og Ingvi. Þau segja gaman að geta boðið upp á þetta starf fyrir krakkana í 8. til 10. bekk. Byrjað verður á þeim aldurshópi en síðan bætt við eftir getu og áhuga og því sem þörfin kallar á.
Hjálpræðisherinn í Reykjanesbæ er einnig að fara af stað með sjálfboðaliðanámskeið þann 22. september. Ef fólk vill kynnast því sem Herinn býður upp á þá eru þeir velkomnir á þetta námskeið. Byrjað verður með mat klukkan 18:30 og svo hefst námskeiðið klukkan 19:00. Námskeiðið er hugsað bæði fyrir þá sjálfboðaliða sem þegar eru að starfa með Hjálpræðishernum en einnig nýja sjálfboðaliða eða þá sem vilja kynna sér hvað er í boði hjá Hjálpræðishernum.
Hjálpræðisherinn er líka með fermingar og nú eru tvö fermingarbörn af Suðurnesjum að byrja í fermingarfræðslu á laugardaginn. Fermingarbörn á vegum Hjálpræðishersins í Reykjavík koma einnig í fræðslu til Reykjanesbæjar þar sem húsnæði Hjálpræðishersins í Reykjavík er ekki tilbúið en það er á lokametrunum í byggingu.
Föndurkirkja
Föndurkirkja er verkefni sem byrjar hjá Hjálpræðishernum 26. september. Húsið opnar klukkan 11:00 og föndurkirkjan stendur til klukkan 13:00. Verkefnið er þannig að sögð er biblíusaga og síðan fer fjölskyldan í það að föndra upp úr sögunni sem flutt var. Svo endar hópurinn á því að borða saman. Þetta verður einu sinni í mánuði, fjórða hvern laugardag.
Þegar Hertex-búðin hefur verið opnuð í sínu rými í húsi Hjálpræðishersins og samkomusalurinn fær sitt gamla hlutverk þá opnast líka rými til að bæta enn frekar í dagskrána í vetur. Þannig eru hugmyndir um spilakvöld og ýmislegt fleira. Þá vilja konurnar í fataflokkuninni koma því á framfæri að á meðan þær eru í húsinu að sinna sínu starfi þá stendur húsnæði Hjálpræðishersins öllum opið sem vilja koma þangað með prjóna eða bara í kaffi. Það er opið hús fyrir alla á meðan starfsemi er í húsinu.
Öllum líður vel
Stelpurnar í fataflokkuninni voru sammála um að þeim líði öllum vel að starfa sem sjálfboðaliðar fyrir Hjálpræðisherinn. Það gæfi þeim mikið að koma saman frekar en að vera einn að rolast heima yfir engu. Önnur lýsir því að starfið hjá Hernum hafi bjargað geðheilsunni, að komast innan um annað fólk. Þær lýsa ljúfum anda og að koma saman á hverjum morgni sé gott samfélag. „Við bæði hlæjum og grátum saman hérna og það ríkir mikið trúnaðartraust á milli okkar,“ segir ein þeirra.
Áberandi vandaður fatnaður frá Suðurnesjum
Þrátt fyrir fréttir af bágu ástandi á Suðurnesjum þá segja þau Hjördís og Ingvi að fataflokkunarverkefnið í Reykjanesbæ sé að halda uppi Hertex-búðunum í Reykjavík og að frá Suðurnesjum berist áberandi góður fatnaður og að Suðurnesjafólk sé örlátt að gefa vandaðan fatnað í fatasöfnunargámana hér suður með sjó. Héðan sé að berast betri og vandaðri fatnaður en almennt gerist.
„Þetta er mikið af góðum og vönduðum vörum og í því magni að það er ekki hægt að selja það allt í búðinni hér á Ásbrú. Þess vegna fer einnig mikið af fatnaði héðan í Hertex-búðirnar í Reykjavík. Þess vegna viljum við líka fá fleiri sjálfboðaliða hingað, því það væri hægt að vinna mun meira af vöru héðan en við viljum ekki drekkja þeim sem eru hérna í meiri vinnu,“ segir Hjördís.
Stendur öllum opinn
Þau Hjördís og Ingvi segja að lokum að Hjálpræðisherinn í Reykjanesbæ standi opinn öllum sem séu með góðar hugmyndir og starfsemin muni fyrst og fremst ráðast af vilja og getu fólks til að framkvæma. Það megi gauka góðum hugmyndum að þeim og ef einhver fáist til að leiða verkefni þá sé hægt að koma þeim á koppinn. Hjálpræðisherinn er ein stór fjölskylda þar sem stutt er við einstaklingsframtak. Þau Hjördís og Ingvi eru bæði leiðtogar hjá Hjálpræðishernum í Reykjavík en frá 1. ágúst síðastliðnum tóku þau einnig að sér að leiða starfið í Reykjanesbæ. Hér suður með sjó er enginn fastur starfsmaður en þau munu fylgja eftir því starfi sem hér er í góðu samráði við þá sjálfboðaliða sem eru að starfa í Reykjanesbæ. Hafa má samband við þau á póstföngin [email protected] og [email protected].