Leynast grænir frumkvöðlar framtíðar í þínum skóla?
Grænir frumkvöðlar framtíðar (GFF) er fræðsluverkefni hjá Matís sem ætlað fyrir nemendur í efstu bekkjum grunnskóla og framhaldsskóla. Markmiðið er að fræða nemendur um áhrif loftslagsbreytinga á hafið og lífríki þess, sjálfbærni og nýsköpun á nýstárlegan og skemmtilegan hátt. Verkefnið er opið öllum skólum landsins og hefur Matís opnað fyrir skráningar fyrir skólaárið 2022- 2023.
Verkefnið Grænir frumkvöðlar framtíðar fór í fyrsta sinn fram á síðasta skólaári með glæsilegum árangri. Tilgangur GFF er að vekja áhuga og efla þekkingu barna á loftslags- og umhverfismálum í þeim tilgangi að virkja þau til baráttunnar gegn loftslagsvánni og hvetja þau til grænnar nýsköpunar, vel tókst til á síðasta skólaári og var markmiðum svo sannarlega náð.
Verkefnið fer fram í skólum undir leiðsögn kennara og hægt er að staðfæra verkefnin eftir þörfum hvers og eins skóla. Verkefninu er skipt í fjórar vinnustofur, vettvangsheimsóknir og MAKEathon. Vinnustofurnar innihalda fræðilega umfjöllun og verkefni, vettvangsheimsóknirnar í sjávarútvegsfyrirtæki og MAKEathonið er nýsköpunarkeppni.
Eftir vinnusaman vetur síðastliðið skólaár var hápunktinum náð í MAKEathon nýsköpunarkeppni skólanna, þar valdi hver þátttökuskóli, Nesskóli í Neskaupstað, Árskóli á Sauðárkróki og Grunnskóli Bolungarvíkur sitt framlag til landskeppni Grænna frumkvöðla framtíðar. Úrslitin voru kynnt í Nýsköpunarvikunni. Verkefnið heppnaðist vel og voru nemendur, kennarar og verkefnastjórar ánægðir með árangurinn.
Áhugasamir kennarar og skólar eru hvattir til að skrá sig til leiks fyrir skólaárið 2022-2023 með því að smella hér: https://forms.gle/r7oGuuR18HZ3qAvQ8.
Skráning er ekki bindandi og því mega þeir sem eru forvitnir endilega skrá sig líka. Einnig er hægt að hafa samband við verkefnastjóra verkefnisins Justine Vanhalst í netfang [email protected] ef einhverjar spurningar vakna. Græna frumkvöðla framtíðar má einnig finna á heimasíðunni https://graenirfrumkvodlar.com/ og á samfélagsmiðlum.
Rafrænn upplýsingafundur verður haldinn þann 18. ágúst næstkomandi, klukkan 13-13:30. Þar verður farið yfir alla fleti verkefnisins og fólki gefinn kostur á að spyrja spurninga, nánari upplýsingar um fundinn eru sendar við skráningu.