Kannski hvílir viss birta yfir hruninu
„Sú þjóðfélagsmynd sem við okkur blasir er auðvitað ekki björt. Í þessum töluðu orðum er verið að greiða um það atkvæði hvort hvort þjóðin beri ábyrgð á gjörðum nokkurra vitfirtra einstaklinga sem með snillibrögðum lögðu þjóðina í rúst með einhverskonar „Barbabrellu". Kannski þurfti þjóðin að fá þetta svipuhögg til að afruglast og endurskoða afstöðu sína til lífsins alls. Ef það er afrakstur hrunsins að við séum aftur farin að lifa hægar með áherslu á aðra þætti sem í heild vega þyngra en græðgisvæðing og efnisleg samkeppni þá kannski þurfti þetta til,“ segir Konráð Lúðvíksson, yfirlæknir á HSS þegar hann lítur yfir árið 2009.
„Nú hafa menn þörf fyrir nánd hvers annars. Fjölskyldur eru heimsóttar og ömmum sinnt. Menningarstarfsemi blómstrar, húfur eru prjónaðar og gefnar nýburum og kirkjur landsins eru fullar. Eftirspurn eftir sálfræðingum er minni en oft og geðdeildir ekki full setnar. Hámarksakstur á vegum hefur lækkað og slysum þar með fækkað. Meira að segja eru slegin ný fæðingarmet. Kannski hvílir viss birta yfir hruninu.
Eftirminnanlegastur þjóðlífsatburður finnst mér vera búsáhaldabyltingin svonefnda, þar sem þjóðin barði atkvæðalausa ríkisstjórn burtu með sleifum. Þessi sama þjóð ætti einnig að geta tekið afstöðu til til þeirra reikninga sem henni er nú uppálagt að skrifa undir. Á Ítalíu henda menn kirkjulíkönum andlitið á foringjum sem standa fyrir engu, nema sjálfum sér. Ég vona að við þurfum ekki að eyða okkar fáu líkönum til slíkra verka í framtíðinni,“ segir Konráð um þjóðmálin á liðnu ári.
Í einkalífinu bar ýmislegt á góma hjá Konráði:
„Ég eignaðist mitt fimmta barnabarn í maí og gifti yngstu dóttur mína Hönnu-Björgu í sumar. Fjölskyldan var hér öll saman komin, sumir alla leið frá Ástralíu og aðrir frá Svíþjóð. Herbergi hússins fengu sitt gamla hlutverk. Öllu þessu fólki farnast vel sem veitir mér mikla gleði. Þetta eru þeir atburðir sem standa ofar öllu í mínu einkalífi, auk þess að vera ennþá í upprunalegu hjónabandi. Hef þannig lokið uppeldisskyldum mínum við börnin mín.
Sjálfur er ég kominn á æðruleysisaldur eftir 26 ára baráttu fyrir lífi fæðingadeildarinnar okkar og viðgengi sjúkrahússins. Oft hefur þessi barátta verið hörð og óvægin en einnig oft gleðirík. Nýlega var hér formlega tekið í notkun tölvsneiðmyndatæki sem er afrakstur söfnunarátaks sem við Drífa Sigfúsdóttir hrundum af stað. Kaupfélag Suðurnesja kostaði þessa höfðinglegu gjöf alfarið og sýndu sjúkrahúsinu þar með ótrúlegan sóma eins og fjölmargir aðrir hafa gert um áranna bil. Við værum ekkert nema vegna fólksins. Nú veit ég ekki hvort ég held vinnu eftir áramótin eða með hvaða formerkjum slíkt yrði.
Ég veit ekki hvort mér nægja öll ólifuð áramót til að „strengja" burtu alla annmarka á sjálfum mér. Ég létti mig um 10 kg á árinu og mun reyna að halda því marki. Ég ætla mér að stunda betur rósaræktina sem ég er byrjaður á og helst að komast á ljósmyndunarnámsskeið hjá Ellerti Grétarssyni, sem hingað til hefur ekki tekist.
Að lokum sendi ég mínar bestu nýárskveðjur til allra Suðurnesjamanna. Lifi fæðingardeildin!“