Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hefðbundnar viðskiptavenjur eru lykillinn að velgengni í kannabisiðnaðinum
Magnús Þórsson sá að Ísland var of lítið og hefur verið í Ameríku í þrjátíu ár.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 30. janúar 2021 kl. 09:15

Hefðbundnar viðskiptavenjur eru lykillinn að velgengni í kannabisiðnaðinum

Keflvíkingurinn dr. Magnús Þórsson setur á laggirnar námsbraut í kannabistengdri frumkvöðlafræði í Johnson & Wales háskólanum í Rhode Island í Bandaríkjunum. Fór til lands tækifæranna 1991 til að freista gæfunnar með kokkapróf upp á vasann. Orðinn einn af stjórnendum J&W háskólans sem sér fram á gríðarstór tækifæri í nýrri kannabisnámsgrein.

Dr. Magnús Þórsson úr Keflavík, prófessor við Johnson & Wales háskólann í Providence, Rhode Island í Bandaríkjunum, hefur fengið leyfi fyrir fyrstu B.S. námsbraut í kannabistengdu frumkvöðlanámi og munu fyrstu nemendurnir hefja nám í því næsta haust. „Eitt stærsta tækifærið í Bandaríkjunum í dag er löglegt kannabis, greinin velti rúmlega ellefu milljörðum Bandaríkjadollara árið 2018 og er talið að hún eigi eftir að tífaldast á næstu tíu árum,“ segir Magnús en hann flutti til Bandaríkjanna árið 1991, nýútskrifaður matreiðslumaður frá Íslandi.

Kannabisfrumkvöðlanámsbraut JWU sameinar vísindi, viðskipti, hagfræði og frumkvöðlafræði. Þannig munu nemendur hljóta menntun í grunni frumkvöðlafræðinnar og þar með læra hvernig eigi að setja á laggirnar eða fá vinnu hjá fyrirtæki sem þróar kannabistengdar vörur, svokallaðar CBD, frá fræi til dreifingar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Við erum að sjá að hefðbundnar viðskiptavenjur eru lykillinn að velgengni í kannabisiðnaðinum. Ræktendur og dreifendur eru í síauknum mæli að leita eftir sérfræðingum með bakgrunn í frumkvöðlafræði og birgðastjórnun til að vera fremst á samkeppnismarkaði. Tengiliðir okkar í iðnaðinum staðfesta þörfina á bókhalds- og viðskiptamenntuðum stjórnendum sem þekkja grasafræði til að reka ört stækkandi rekstur,“ segir Keflvíkingurinn sem hóf nám í sama háskóla við komuna til Bandaríkjanna 1991.

Eldri sækja í heilsubætandi vörur kannabis

Þrátt fyrir það að kannabis verði ekki ræktað sem hluti af náminu, munu nemendur vinna með plöntur sem ræktast á svipaðan hátt, til að mynda tómata, coleus, og humla. Gróðurhús, búin tjöldum, ljósabúnaði, lofthreinsikerfi og umhverfisskynjurum, munu veita nemendum verklega reynslu í að mæla, meta og hámarka vöxt plantna. Þeir munu læra um efnainnihald plöntunnar og lífræna ræktun. „Við munum eima úr plöntunni olíur og draga úr önnur efni sem nýtast í krem og fleira. Efni sem er selt í dropateljara, heilsubætandi vörur.“

Magnús segir að það hafi komið honum á óvart, þegar hann byrjaði að gera rannsóknir í þessum málum, að meðalaldur fólks sem sækir í þessar vörur er vel yfir fimmtugu og eldra. Á nokkrum stöðum í Bandaríkjunum eru glæsilegar verslanir þar sem vörur úr kannabis eru á boðstólum. Þetta er ekki selt á bak við hurð. Kúnnahópurinn er fólk á efri árum sem á við ýmisleg vandamál eða kvilla að stríða sem fylgir öldrun og kannabis hefur lækningamátt við. Fólk hefur keypt kannabisblómið sem hægt er að mylja og reykja í vape-búnaði en líka olíur sem eru unnar úr plöntunni.“

Risaiðnaður veltir milljörðum

Á síðasta árið velti löglegi kannabismarkaðurinn í Bandaríkjunum 23 milljörðum dollara [um 3.000 milljarðar íslenskra króna], er gert ráð fyrir því að árið 2027 verði innkoman um 75 milljarðar Bandaríkjadala [nærri 10.000 milljarðar króna]. Magnús segir að það séu mikil tækifæri fyrir lítil fyrirtæki og rekstraraðila því þessi markaður er mjög stór og víðtækur og inniheldur líka matvöru, klæðnað, iðnaðarvöru, byggingarvörur að ógleymdum lyfjum og olíum.

Mikil tækifæri fyrir skólann

Johnson & Wales háskólinn er með „kampusa“ (háskólasvæði) á fjórum stöðum í Bandaríkjunum. Auk Rhode Island eru þeir í Miami, Denver Colorado og Charlotte. Nemendur eru um fjórtán þúsund og skólinn hefur verið þekktastur fyrir kennslu í greinum tengdum hótel- og veitingageiranum en hefur verið að bæta við fleirum á undanförnum árum, m.a. verkfræði og heilsutengdum greinum en þó ekki læknisfræði. Í nýja kannabisnáminu verða margvíslegar námsgreinar, m.a. kannabislögfræði og stefnur, grasafræði, hagnýt grasa- og sveppafræði, umhverfisfræði, þróun nýrra viðskiptaleiða, og vöxtur og sjálfbærni smærri fyrirtækja.

„Við munum taka allt fyrir sem tengist þessu. Ekki bara vörur sem fólk mun nota heldur líka lífrænt ræktaðan mat, olíur og sápur fyrir þá sem eru með viðkvæma húð og fleira. Og auðvitað allt sem kemur að rekstri og fleiru í kringum þennan iðnað. Þetta er gríðarlega spennandi grein sem er að vaxa ofurhratt í Bandaríkjunum. Okkar skóli er fyrstur og því með forskot.“

Magnús segir að þetta sé stórt tækifæri fyrir skólann því um sé að ræða risaiðnað og hann hefur skrifað tvo kúrsa í náminu en hann hefur unnið undirbúninginn í samvinnu við fleiri deildir í skólanum, m.a. líffræðideildina.

„Ég hef verið að kenna nýsköpun og mál tengd kannabis hafa reglulega komið upp í umræðum okkar á síðustu árum. Margir hafa sýnt þessu áhuga og við höfum skoðað tölur í greininni sem hefur vaxið hratt. Mér fannst þetta einhvern veginn svo stórt tækifæri fyrir háskólann að vera fyrstur á þessu sviði. Viðbrögðin frá því þetta fór að spyrjast út hafa verið mjög mikil og góð og skólinn hefur verið í sviðsljósinu í sjónvarpi og fjölmiðlum að undanförnu. Þetta er fyrsta námið á háskólasviði í þessum fræðum í heiminum. Hampurinn, eða kannabisplantan, var gerð lögleg til ræktunar árið 2018 fyrir utan THC-hluta hennar. Þetta lyf sem hefur verið skráð sem eiturlyf hefur mikinn lækningamátt og reynst fólki vel sem hefur þjáðst af flogaveiki, lystarleysi og til dæmis Parkinson-sjúkdómnum. Í mörgum fylkjum Bandaríkjanna er leyft að kaupa til eigin neyslu um það bil tuttugu grömm á mann. Kamilla Harris, nýr varaforseti Bandaríkjanna, sagði í ræðu sinni við innsetningu nýs forseta að það þyrfti að afglæpavæða kannabis en þeldökkt fólk í landinu hefur verið lögsótt miklu meira en aðrir fyrir neyslu þess. Þarna eins og víðar birtist kynþáttahatur og mismunun. Við erum að bjóða upp á löglegt nám og sýna fram á tækifæri fyrir alla, sama hvaða hörundslit fólk er með.“

Á Washington Hilton hótelinu þjónustaði Magnús þjóðhöfðingja og stórstjörnur.

Skemmtileg æskuár í Keflavík

Magnús er sonur hjónanna Huldu Guðmundsdóttur og Þórs Magnússonar og var alinn upp í Keflavík. Hann á tvo bræður, Jóhann og Baldur. Hann segir að það hafi verið frábært að alast upp í Keflavík þar sem vinsælir staðir krakkanna voru bryggjan, tjarnirnar og margt fleira. Hann gekk í barnaskólann, sem nú er Myllubakkaskóli, og þaðan lá leiðin í Gagnfræðaskóla Keflavíkur, sem nú er Holtaskóli.

„Ég var nú ekki nógu duglegur nemandi og fékk það aðeins í andlitið nokkrum árum síðar. Pabbi var rafvirki og ég gaf því séns, fór á verkstæðið með honum en fann það út að rafvirkjun lá ekki fyrir mér. Þegar ég var í 8. bekk gerðist eitthvað sem átti eftir að hafa mikil áhrif á mig. Ég fór í starfskynningu, sem þá var alltaf gert í eldri bekkjum skólans, á Tomma hamborgara veitingastaðinn sem þá var á Fitjum í Njarðvík. Ég hafði fengið aukavinnu með skólanum í Hagkaup þegar verslunin opnaði þar og þekkti því til á svæðinu. Það var verið að opna bensínstöð og hlutir að gerast. Í starfskynningunni kynntist ég rekstrinum hjá Tómasi sem þá var að hefja útrás og markaðssetja vörumerkið (sem sagt að selja öðrum rétt á eins framleiðslu eða sölu). Á þessum tíma var maður hjá Tómasi sem var með rekstrarráðgjöf, m.a. út af þessari útrás, og mér fannst hann vita mjög mikið. Hann náði einhvern veginn til mín og ég ákvað þá að ég vildi verða eins og hann. Þessi maður hafði farið í háskóla í Bandaríkjunum og ég fékk upplýsingar um það hvernig ég gæti gert það sama og læra veitingatengda rekstrarfræði. Einn lykillinn að því væri að læra kokkinn eða þjóninn og þannig kæmist ég í háskóla erlendis. Í framhaldinu kláraði ég Gagnfræðaskólann og komst svo á samning í kokkinum árið 1987 hjá Axel Jónssyni, þekktum veitingamanni í Keflavík, sem þá rak fyrsta vínveitingastaðinn á Suðurnesjum, Glóðina. Ég vann hjá honum þar og var með honum þegar hann opnaði annan stað við hliðina á sem hét Langbest. Ég átti skemmtilegan tíma með Axel og hans fólki og ég er honum ævinlega þakklátur. Hann var mér alltaf svo góður – en hann seldi síðan veitingastaðina og ég gat haldið kokkanáminu mínu áfram annars staðar, fór m.a. á Hótel Ísland en lauk svo náminu á Hótel Ísafirði. Ég hafði unnið þar einhver sumur en ég vann líka á unglingsárunum hjá hernum. Það má ekki gleyma því. Á veitingastaðnum Viking sem margir Suðurnesjamenn kannast við og varð síðar Wendy’s. Þar er veitingastaðurinn Langbest núna sem ég vann við þegar hann opnaði við Hafnargötuna. Síðasta starfið mitt áður en ég hélt til Bandaríkjanna var að fara sem afleysingakokkur í einn túr með togara frá Bolungarvík. Nýútskrifaður kokkur úr Keflavík eldaði skötusel í rjómasósu á sunnudegi og ég hélt ég yrði kjöldreginn að bjóða ekki upp á kjöt á þessum degi.“

„Mér fannst þetta einhvern veginn svo stórt tækifæri fyrir háskólann að vera fyrstur á þessu sviði. Þetta er fyrsta námið á háskólasviði í þessum fræðum í heiminum. Viðbrögðin frá því þetta fór að spyrjast út hafa verið mjög mikil og góð og skólinn hefur verið í sviðsljósinu í sjónvarpi og fjölmiðlum að undanförnu.“

Á launum í náminu

Magnús sótti Hótel- og veitingaskólann í kokkanáminu og um það bil sem hann var að ljúka því kom maður frá Johnson & Wales háskólanum í Bandaríkjunum og kenndi við skólann. „Mér leist vel á skólann og hafði áhuga á að fara þangað. Sótti um og fékk inni og var mættur til Bandaríkjanna haustið 1991. Þá voru nítján Íslendingar í háskólanámi í nokkrum skólum í  Providence en í borginni eru nokkrir háskólar. Ég fékk fljótlega tækifæri til að vera með stoðkennslu og gat stundað hana í greinum þar sem tungumálakunnátta skipti ekki stærsta máli. Ég fékk greitt fyrir þetta og var þannig lagað á launum í mínu námi. Stoðnám er þannig að nemendur við skólann aðstoða samnemendur sína og ég fann að ég var ekki eins vitlaus og ég hélt,“ segir Magnús og hlær en hann var búinn að fá góða reynslu á námstímanum á Íslandi þar sem hann vann á nokkrum stöðum. Á námsárunum vann Magnús m.a. á Hard Rock veitingastaðnum sem Tómas Tómasson rak og þar var oft verið mjög mikið að gera en einnig segist Magnús hafa fengið góða reynslu á Hótel Íslandi. Keflvíkingurinn lauk svo fjögurra ára háskólanámi við J&W skólann á rúmum tveimur árum með því að leggja meira á sig og taka námið hraðar.

Vann á stórum hótelum

Eftir prófgráðuna í J&W háskólanum hafði Magnús áhuga á starfi í hótelgeiranum og vildi komast að á stóru hóteli. 

„Ég ætlaði bara að fá vinnu á stóru hóteli með fleiri en 500 herbergjum. Ég kynntist konu sem síðar varð eiginkona mín á blindu stefnumóti. Hún starfaði á Waldorf Astoria hótelinu á Manhattan sem var eitt það flottasta í borginni. Ég sótti um störf og fékk vinnu á New York Hilton hótelinu sem var það stærsta í borginni. Eldhúsin á þessu stóra hóteli voru undir minni umsjá og starfsmennirnir voru 120. Ég var þar í tvö ár, fékk þá stöðuhækkun og varð veitingastjóri á Hilton hóteli í Washington D.C. sem var með ellefu hundruð herbergi og þrjátíu svítur og ég var yfir herbergjaþjónustunni. Þar voru þjóðhöfðingjar og frægt fólk reglulegir gestir. Ég man eftir Michael Gorbachev, fyrrum forseta Sovétríkjanna, Bill Clinton sem var Bandaríkjaforseti á þeim tíma og hann gekk oft í gegnum hóteleldhúsið og heilsaði. Ég sá einnig um veislur fyrir John Travolta, Anthony Hopkins og fleiri. Ekki slæmt fyrir gaur úr lúgusjoppu á Fitjum,“ segir Magnús sem fékk fljúgandi start í Bandaríkjunum.

Magnús fyrir framan háskólasvæðið í Rhode Island.

Þurrhangið kjöt í græna kortinu

Eitt af því sem er nauðsynlegt til að starfa í landi tækifæranna er svokallað græna kort. Það fékk Magnús árið 1999 í gegnum næsta starf hans sem var aðstoðarverslunarstjóri í stórversluninni Sutton Place Gourmet. Okkar maður setti það sem eitt af skilyrðunum fyrir því að koma í starfið að nýir vinnuveitendur hans hjálpuðu honum að fá það. Græna kortsumsóknin var meðal annars byggð á sérkunnáttu Magnúsar á að þurrhengja kjöt (Dry Aging) en það var ekki hefð fyrir slíkri aðferð í Bandaríkjunum. Hún þykir hins vegar betri fyrir kjötið en er tímafrekari og dýrari en þetta hjálpaði til við að fá kortið. Reksturinn var umfangsmikill og eftir að ítalska Balducci-keðjan keypti verslunina kom Keflvíkingurinn að opnun tveggja stórverslana til viðbótar. „Það var mikið af nýríku fólki á Washington-svæðinu og margt í gangi á svæðinu,“ segir Magnús þegar hann rifjar upp þennan tíma en hann var í verslunarekstrinum í tæp fjögur ár eða til ársins 2000.

Skíðahótel í Vermont

Á þessum árum kviknaði áhugi hjá Magnúsi að stofna sinn eigin rekstur og eftir nokkra leit fann hann skíðahótel í Dover, smábæ í Vermont-fylki. Hótelið The Gray Ghost Inn var með 27 herbergi og byggt árið 1950 – og eins og okkar manns var von og vísa lét hann hendur standa fram úr ermum og beið ekki bara eftir viðskiptavinunum.

„Reksturinn gekk ágætlega og ég rak fjallahótelið í tólf ár. Margir Bandaríkjamenn, sérstaklega frá borgum eins og New York og Boston, komu á skíði en ég fór fljótlega að vinna í því að ná meiri viðskiptum yfir sumartímann. Eftir fimm ár fékk ég bandarískan ríkisborgararétt og ákvað ári síðar að sækjast eftir áhrifum í bæjarpólitíkinni. Ég leitaði mér stuðnings og kynnti ákveðnar breytingar í efnahagsmálum á svæðinu og eitt af því sem ég lagði fram í kosningabaráttunni var að ná fram reglugerð sem gerði ráð fyrir því að 1% af söluskatti ferðamannaiðnaðar yrði notað til auglýsingar, kynningar og markaðsetningar svæðisins. Það fór í gegn og ég komst í fimm manna bæjarráð, varð varformaður þess en 1250 manns höfðu kosningarétt í bæjarfélaginu. Ég lagði síðan til að hluti af þessum peningum yrði notaður til að gera göngu- og hjólastíga og fegra umhverfið, efna til tónleika og fleira. Eitt af markmiðunum með þessu öllu var að draga fleiri ferðamenn á svæðið. Meginhluti fasteigna bæjarins var í eigu fólks frá New York og Boston, fólks sem bjó ekki í bænum. Ég var í raun að skattleggja það fólk. Við náðum ágætum árangri í stjórn bæjarins á þessum tíma og þessar breytingar gengu vel. Ég hló nú stundum inni í mér að pjakkur úr Keflavík væri yfirmaður lögreglunnar á svæðinu en þetta bæjarráð var yfirstjórn bæjarins, þar með talið lögreglunnar.“

– Hvernig gekk svo í framhaldinu?

„Hluti af frekari verkefnum var síðan að  styrkja sumartraffíkina sem í mörg ár var fólk sem kom í helgarferðir með hópferðabílum. Það lognaðist svo út af árið 2005 en ég sá tækifæri í að ná til fleiri ferðamanna, m.a. til hópa fólks sem keyrði í gegnum bæinn á mótorhjólum, ekki síst hjólafólki á Harley Davidson-mótorhjólum. Innan fjögurra klukkstunda frá Vermont búa um 75 milljónir manna, ein milljón þeirra er mótorhjólafólk og ég ákvað að reyna við þann hóp. Við vorum með umhverfið og ökuleiðir og þetta var því markhópur til að sækjast eftir. Ég gerði mér lítið fyrir og ákvað að slást í hópinn með hjólafólkinu og keypti mér hjól. Hjólaði með fólkinu, kynntist því og lagðist í vinnu við það að sjá hverju það væri að sækjast eftir. Ákvað síðan að útbúa nokkur kort með skemmtilegum ökuleiðum á svæðinu og vann mikla vinnu með fundarhaldi, kynningum og fleiri aðgerðum. Það bar árangur, traffíkin jókst smám saman og þriðja sumarið var fullbókað hjá okkur á hótelinu af svona hópum sem sótti okkur stíft um helgar. Skíðatraffíkin var ágæt en fór svolítið eftir veðri, tímabilið frá þakkargjörð í nóvember og fram í miðjan mars. Í 1.250 manna bæ jókst fólksfjöldinn stundum í 25 þúsund manns. Bærinn var að mestu leyti 700 metrum yfir sjávarmáli og umhverfið fjallríkt og fagurt.“

The Gray Ghost INN fjallahótelið í Vermont var vel sótt af skíða- og mórorhjólafólki.



„Við náðum ágætum árangri í stjórn bæjarins á þessum tíma og þessar breytingar gengu vel. Ég hló nú stundum inni í mér að pjakkur úr Keflavík væri yfirmaður lögreglunnar á svæðinu en þetta bæjarráð var yfirstjórn bæjarins, þar með talið lögreglunnar.“

Sjálfbærni nauðsynleg

Eftir tólf ár í rekstri hótelsins í Vermont skildi Magnús við konu sína en þau eiga þrjár stúlkur saman. Hann ákvað að venda sínu kvæði í kross og fara í mastersnám í kennslufræði í Bennington háskólanum sem er í suðurhluta Vermont. Með náminu fékk hann starf í skólanum og að loknu náminu fékk hann styrk frá skólanum til að sækja doktorsnám í Iowa State University.

Rannsóknir Magnúsar í því námi lutu að kauphegðun Bandaríkjamanna við sjálfbærni en það er nokkuð sem okkar maður hefur sérhæft sig í síðan. „Ég hef skrifað sex námsgreinar um sjálfbærni og er orðið mitt sérsvið getum við sagt, m.a. í veitingarekstri. Ef eitthvað er ekki sjálfbært gengur það ekki lengi. Það má ekki taka meira úr kerfinu en það getur skaffað sjálft. Það þarf að fara vel með auðlindirnar hverjar sem þær eru. Fiskurinn á Íslandi er dæmi um það og ég hef sagt nemendum mínum frá sjálfbærni á Íslandi í hita og rafmagni að ógleymdum landbúnaði nær alla tíð.

Magnús varð doktorsritgerð sína í Iowa í apríl 2018 en kenndi samhliða náminu við J&W háskólann í Rhode Island. Hann segist hafa þurft að leggja talsvert á sig og eitt sumarið fór hann í akademíska fangavist, eins og hann kallar hana, en þá var sextán vikna námskeið afgreitt á einni viku. „Við þurftum að lesa námsefni og skila fimm ritgerðum á dag. Við vorum að til klukkan tvö á nóttunni og maður vaknaði eftir nokkra tíma og kláraði áður en kennsla hófst aftur klukkan átta,“ segir Magnús og hlær en hann lauk doktorsnáminu í hegðunartengdri hagfræði sex árum síðar en vann með því alla tíð.

Íslenskur Kani eignast byssu

– Ég spyr Magnús að því hvort hann sé orðinn Kani eftir þrjátíu ár í Bandaríkjunum.

„Hugurinn er alla vega mikið á Íslandi. Landið er mikið í umræðunni og það þykir flott að vera Íslendingur í Bandaríkjunum. Mér þykir mjög vænt um Keflavík og Suðurnesin. Ég kom síðast heim 2018 og fór m.a. að veiða silung með vini mínum Tryggva Þorsteinssyni. Í kófinu hef ég verið meira í sambandi við fólkið mitt á Íslandi. Heimurinn hefur minnkað í C-19. Hér á mínum slóðum í Rhode Island sem er demókrataríki hefur verið lögð mikil áhersla á að nota grímur. Í skólanum erum við með hluta kennslunnar í staðnámi, þ.e. fjórðungur nemenda er í kennslustofunni en hinir í rafrænu sambandi. Þannig að við erum að passa upp á sóttvarnarreglur. Ég set verkefnin upp á netinu og nemendur sækja þau þar og skila mér rafænt. Engin pappír.“

– En þú hlýtur að eiga skammbyssu eins og nær allir Bandaríkjamenn, er það ekki?

„Þegar ég varð bandarískur ríkisborgari keypti ég mér strax skammbyssu en ég losaði mig fljótt við hana. Ég keypti mér hins vegar haglabyssu og hef notað hana á í áhugamálum mínum í veiðum á fuglum, s.s. öndum og rjúpum. Keypti mér svo nýlega lóð undir sumarhús sem ég hef verið að dunda við. Svo hef ég farið í stangaveiði til Alaska, m.a. með Íslendinga í laxveiði. Þegar ég var í hótelrekstri í Vermont bauð ég m.a. upp á ókeypis kennslu í fluguveiði. Það var fín silungsá hinum megin við veginn hjá hótelinu.“

Magnús, eiginkonan Courtney  og fjölskylduhundurin Jeseper í heimabænum Barrington.

Dýra ferðamenn til Íslands

– Hvað eiga Íslendingar að gera þegar ferðamenn fara aftur að koma til landsins? Ertu með skoðun á því?

„Íslendingar þurfa að velja hvers lags ferðamenn þeir vilja fá til landsins. Það er hægt að ná til dýrari ferðamanna sem eyða meiru. Ég kynntist því í Vermont. Skíðafólk sem kom og gisti hjá okkur eyddi þrisvar til fjórum sinnum meira en fólk sem kom á bílunum, var með sitt nesti og gisti ekki. Ísland fékk mikið af slíkum ferðamönnum þegar WOW seldi ódýrar flugferðir til Íslands. Fólk sem gisti hjá okkur eyddi að meðaltali 270 dollurum á dag á meðan gestirnir sem komu bara í einn dag eyddu bara um 70 dollurum. Það þarf að vekja athygli á sérstöðu Íslands, sögu landsins og náttúruperlum og ná til ferðamanna sem hafa áhuga á því. Þetta er spurning um markaðsaðferðir. Ef þú til dæmis auglýsir í tímaritum eins og National Geographic nærðu til áhugaljósmyndara sem eyða miklu meiri peningum en verkafólk sem les blöð eins og New York Post.“

„Í þjóðgarðinum í Bandaríkjunum er rukkaður aðgangseyrir og traffíkinni er stýrt. Íslendingar þurfa að gera það í meiri mæli. Þannig er hægt að styrkja innviði. Þá verða færri ferðamenn að gera hægðir sínar úti í móa. Það er mikilvægt að Ísland hugi vel að þessu málum áður en næsta bylgja hefst.“

– Þú komst með nýjung í skattheimtu fyrir bæjarfélagið í Vermont. Skattheimta ferðamanna sem koma til Íslands hefur verið deilumál og ekki allir samála í því. Hvað segir þú um það?

„Í þjóðgarðinum í Bandaríkjunum er rukkaður aðgangseyrir og traffíkinni er stýrt. Íslendingar þurfa að gera það í meiri mæli. Þannig er hægt að styrkja innviði. Þá verða færri ferðamenn að gera hægðir sínar úti í móa. Það er mikilvægt að Ísland hugi vel að þessu málum áður en næsta bylgja hefst. Það eru fleiri dæmi en Ísland þar sem ferðamannafjöldinn er það mikill að hann er til vandræða eins og t.d. á Ítalíu. Ég kynntist því þegar ég fór með námshópa frá Bandaríkjunum þangað. Feneyjar eru með ferðamannavandamál og búið að skemma ferðamennskuna þar.“

Magnús gekk í hjónaband að nýju fyrir fimm árum og er ánægður með lífið og tilveruna. Hann á fjórar dætur og ein þeirra býr á Íslandi. Foreldar hans búa í Keflavík og hann heyrir í þeim oft í viku. Hann segir spennandi tíma framundan í J&W háskólanum en næsta haust setjast nemendur á bekk og fara að læra kannabisfræði. „Aðsóknin er margfalt meiri en við gerðum ráð fyrir. Við vorum að vonast eftir 25 nemendum en það eru komnar yfir hundrað umsóknir. Það er lúxusvandamál,“ sagði Keflvíkingurinn að lokum.

Með nemendum úr háskólanum í mánaðar námsferð til Ítalíu.



Við laxveiðar í Alaska.



Magnús með eiginkonu, dætrum, tengdasyni og afastrákum.



Það er alltaf stutt í kokkinn.