Óskabrunnarnir í Innri-Njarðvík gáfu af sér ástarævintýri, heilsu og happafé
Þrír gamlir vatnsbrunnar í Innri-Njarðvík hafa fengið nýtt líf og orð á sig sem óskabrunnar. Karvel Granz bjargaði þeim frá því að hverfa undir framkvæmdir og uppgötvaði síðar sérstaka „óskanáttúru“ þeirra – einn fyrir ást, annar fyrir heilsu og sá þriðji fyrir fjárhagslega lukku. Nú eru þeir endurgerðir og verða kynntir á sögugöngu Byggðasafns Reykjanesbæjar miðvikudaginn 13. ágúst.
Árið sem unnið var að göngustíg með strandlengjunni í Kópu var stórvirk jarðýta við það að ryðja yfir fallegan, fornan brunn. Karvel stöðvaði vinnuna og fékk jarðýtustjórann til að hlífa honum. Fljótlega uppgötvaði hann að brunnurinn hafði einstaka „óskanáttúru“ – eftir að hafa kastað pening í hann og óskað sér ástarævintýris kynntist hann eiginkonu sinni, Rebecca, og í dag eiga þau tvö börn og hafa verið gift í 14 ár. Þessi brunnur er nú þekktur sem Ástarbrunnurinn.
Karvel kannaði einnig tvo aðra brunna í Innri-Njarðvík. Brunnurinn við tjörnina milli kirkjunnar og Byggðasafnsins reyndist hafa sérstaka tengingu við frjósemi og heilsu, og fékk nafnið Heilsubrunnurinn. Karvel og fleiri sem óskuðu sér þar barnagetu eða bata segjast hafa fengið óskir sínar uppfylltar.
Þriðji brunnurinn, aftan við Stekkjarkot, fékk nafnið Peningabrunnurinn. Þar óskaði Karvel sér bættrar fjárhagsstöðu eftir áföll í hruninu – og segist hafa notið árangurs í formi happafjár og arfs.
Með aðstoð bæjarfélagsins og Minjastofnunar hafa brunnarnir verið endurgerðir og lagfærðir. Ástarbrunnurinn í Kópu hefur fengið upprunalegt útlit, Heilsubrunnurinn er hreinsaður, upplýstur og merktur, og von er á lagfæringu Peningabrunnsins.
Karvel segir brunnana menningarverðmæti samofin sögu sjósóknar fyrri tíma og óskar heitast að þeir fái áfram vernd og virðingu.
Eftirfarandi er samantekt Karvels um brunnana:

Óskabrunnarnir 3 í Innri-Njarðvík
Aðkoma mín að brunnunum 3 í Innri-Njarðvík hófst með því er ég sagði föður mínum Áka Granz að framkvæmdir við gerð göngustígsins með strandlengjunni væri stórvirk Jarðýta að ryðja upp úr fjörunni í Kópu malarkamb til að leggja nýja göngustíginn eftir. Pabba var brugðið og vildi þangað strax til að tryggja að ekki væri rutt yfir vatnsbrunn er væri þarna í fjörukambinum sem hann sagði vera menningarverðmæti samofin sögu sjósóknar fyrri tíma.
Þegar í víkina var komið var ekki seinna vænna því stórvirk jarðýta var nánast búinn að ryðja yfir brunnin sem ekki var augljós þarna í umhverfi sínu. Stöðvuðum við jarðýtustjórann og bentum honum á brunnin en hann virtist fegin og sammála að svona fallegur brunnur ber að varðveita og breytti sínu verklagi í samráði við það.
Nokkru seinna eftir að göngustígurinn með strandlengjunni var lokið var mér oft hugsað til brunnsins og velti því fyrir mér hvort hann hefði náttúru sem óskabrunnur og í framhaldi ákvað ég að láta á það reyna.
Ástarbrunnurinn
Á þessum tíma hafði ég verið einn í mörg ár og fannst tími til kominn að hressa upp á tilhugalífið og datt í hug að láta reyna á náttúru brunnsins og kanna hvort hann uppfylli óskir enda fannst mér ég eiga smá tilkall eftir að hafa bjargað honum.
Já, og viti menn að eftir að hafa kastað pening í brunninn og óskað af einlægni að lenda í ástarævintýri, varð ég ekki fyrir vonbrigðum og brunnurinn uppfyllti óskir mínar undanbragðalaust. Gekk þetta svona um tíma og eftir nokkrar heimsóknir í brunnin og upplifað mátt hans við að uppfylla óskir mínar ákvað ég að leggja fram mína stóru og hinstu ósk.
Ég óskaði mér af heilum hug að eignast unga og fallega konu sem lífsförunaut og ást okkar yrði eilíf. Ég var varla kominn heim er Facebook lagði til að ég mundi gera vinarbeiðni á gullfallega stúlku sem mér á undarlegan hátt fannst kannast við eins og hafa þekkt hana áður. Þarna var grunnurinn lagður að minni framtíð og samskipti við stúlkuna vatt upp á sig með nánast daglegum samskiptum þar sem ást okkar þroskaðist í heilt ár þar til við ákváðum að hittast og innsigla hjúskaparheit okkar en í dag eigum við 14 ára hjúskaparafmæli og tvö börn.
Heilsubrunnurinn
Faðir minn hafði gaman af hversu vel rættist úr samskiptum mínum við Ástarbrunninn og benti mér á tvo aðra brunna í Innri Njarðvík ef ég vildi kanna hvort hefðu einhverja náttúru enda ekki ólíklegt að dulin tengsl væru milli þeirra. Annar þeirra er einstaklega fallega hlaðinn brunnurinn milli Tjarnar og Kirkjunnar og hinn er heimilisbrunnur aftan við Stekkjakot.
Fljótlega eftir að eiginkona mín kom til landsins vildi ég að hún hefði nóg fyrir stafni til að festa betur rætur og þannig tryggja betur okkar samband. Var mér hugsað til brunnsins við tjörnina og ákvað að kastaði pening í hann og óskaði heitt og innilega að frúin yrði með barni sem fyrst.
Varð ég ekki fyrir vonbrigðum og náttúra brunnsins opinberaðist nánast strax er konan mín varð ólétt og þannig hófst annar kafli í mínu lífi en fyrir átti ég uppkomna dóttir.
Ári seinna er ég var að mála Byggðasafnshúsið þarna ofan við brunnin sagði ég tveimur starfsmönnum frá reynslu minni af náttúru brunnsins gagnvart frjósemi. Vantrúaðir en höfðu gaman að ákváðu þeir að láta á reyna og hentu pening í brunninn og óskuðu þess að eignast barn. Já og ekki brást brunnurinn þar sem kærasta annars þeirra varð ólétt næstum strax og hinn tæplega ári seinna með sinni kærustu.
Til að byrja með hélt ég að þarna væri fundinn Frjósemisbrunnur en með tímanum og af persónulegri reynslu hef ég uppgötvað að þarna er um að ræða öflugan heilsubrunn. Þegar eitthvað bjátar á hefur það reynst mér nóg að kíkja í brunninn og óska mér bata og þannig viðhaldið hreysti og getu margfalt betri en aldur minn segir til um.
Peningabrunnurinn
Fyrir aftan Stekkjarkot er þriðji brunnurinn og var ég orðinn spenntur að kanna hvort hann hefði náttúru í takt við hina brunnana. Þar sem ég var orðinn ráðsettur með konu og barn var það helst peningar sem mig skorti til að mæta auknum útgjöldum við fjölskyldulífið.
Var það úr að ég henti pening í brunninn og óskaði mér af heilum hug að eignast meiri peninga og öðlast þannig meira fjárhagslegt öryggi en í hruninu tapaði ég öllu sparifé mínu en hélt íbúðinni. Eins og með hina brunnana reyndist þessi sannkallaður óskabrunnur og ekki leið að löngu uns fjármál mín voru komin í góðan farveg.
Þar sem þetta er mjög viðkvæmt persónulegt mál, mun ég ekki fara nákvæmlega út í það hér hvernig fjárhagslegur ávinningur minn var en get þó viðurkennt að um er að ræða happafé og arf.
Frá því ég kynntist óskabrunnunum 3 í Innri-Njarðvík og náttúru þeirra hef ég ekki leynt þeirri gæfu er samskipti við þá hafa veitt mér. Allir sem skoðað hafa brunnana dást af fegurð þeirra og hversu skemmtilega þeir tengjast strandlengjunni í Innri-Njarðvík.
Mér tókst að fá bæjarfélagið í nauðsynlega björgunaraðgerð því ástand brunnana var þannig að þeir þurftu verulega lagfæringu, bætt aðgengi og merkingar til að upphefja virðuleika þeirra.
Ástarbrunnurinn í Kópu hefur verið endurgerður í upprunalegri mynd af strandamanninum Guðjóni S. Kristinssyni í samræmi við óskir Minjastofnunar. Heilsubrunnurinn hefur verið hreinsaður, upplýstur og grind komið fyrir en vegna merkilegra fornminja er komu í ljós við endurgerð vildi Minjastofnun bíða með gerð hleðsluveggs umhverfis hann. Peningabrunnurinn bíður lagfæringar sem vonandi verður fyrr en seinna.
Því er ekki að leyna að mér rennur blóð til skyldunnar og á þá ósk heitasta að brunnarnir fái þá virðingu og vernd er þeim ber og af einlægri þakkarskuld hef ég nú opinberað sögu mína gagnvart þeim.