Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hef alltaf verið helvíti rauður
Fimmtudagur 16. október 2003 kl. 14:14

Hef alltaf verið helvíti rauður

„Það eru alltaf að koma bréf frá Landssímanum. Þeir eru búnir að hækka allt saman. Gakktu inn vinur minn,” sagði Sigurður Hallmannsson þegar blaðamaður Víkurfrétta leit í heimsókn á heimili hans í Garðinum fyrir stuttu. Sigurður er rúmlega 93 ára gamall og er vel ern. Heimili hans er snyrtilegt og maður finnur gamlan anda í húsinu þegar maður lítur á myndirnar á veggjunum. Afkomendurnir eru margir og veggina prýða myndir af þeim. Það er ekki að sjá á Sigurði að hann sé elsti íbúi Gerðahrepps. Hann gengur öruggum skrefum um íbúðina og fær sér í nefið þegar hann er sestur í stofunni og hefur boðið blaðamanni sæti. Sigurður er gáskafullur þegar hann byrjar að ræða ævi sína og hann er ekki þekktur fyrir skoðanaleysi.

15 ára í fyrsta róðurinn
Sigurður er fæddur í Vörum í Garði þann 2. júlí árið 1910 en ólst að mestu upp í Lambhúsum. Foreldrar hans voru Hallmann Sigurðsson og Ráðhildur Ágústa Sumarliðadóttur og eignuðust þau sjö börn, en fimm þeirra komust á legg. Þegar Sigurður er spurður út í uppvaxtarárin segir hann að þau hafi verið góð og frjálsræðið mikið. „Á meðan barn er með fullan maga og sæmilegur friður er á heimilinu þá er allt hitt í góðu lagi og börnin leika sér þá áhyggjulaus. Þannig var það hjá mér og hér var nokkuð stór barnahópur sem lék sér saman. Það voru engin landamæri í þá daga, maður fór inn að leika með börnunum. Við vorum í feluleikjum og allskyns boltaleikjum, en skemmtilegast var þó að fara út á bát sem við fengum lánaðan hjá beitningaköllunum til að fara út í þarann sem kallað var. Þá voru bátarnir teknir upp með handafli og þeir biðu eftir því að það félli að til að taka bátana upp og á meðan þá fengum við að skella okkur aðeins á „sjóinn.” Ef að þetta sæist í dag þá yrði kölluð út björgunarsveit. En á þessum árum voru 12-13 ára drengir orðnir nær fullorðnir. Ég fór fyrst á mótorbát þegar ég var 15 ára gamall. Fyrsti róðurinn var hreint helvíti því ég var svo sjóveikur að ég hélt ég myndi deyja, en svo lagaðist það. Nítján ára gamall fór ég svo aftur á sjóinn, en þá var ég búinn að ná mér í vélstjóraréttindi.”

Hittust á Þingvöllum
Sigurður hefur búið alla sína tíð í Garðinum, fyrir utan fjögur ár þar sem hann ásamt eiginkonu sinni, Jónínu Helgu Ísleifsdóttur bjó í Hafnarfirði á kreppuárunum. „Ég veit að fólk trúir því ekki hvernig lífið var á þessum árum,” segir Sigurður og aðspurður segir hann að þessi tími hafi verið erfiður. „Þó man ég eftir því að ég fékk þriggja vikna vinnu í bæjarvinnunni í Hafnarfirði og það þótti gott. Það var víða erfitt og það var ekki farsími á hverju heimili.” Þau hjónin eignuðust fimm börn og komust fjögur þeirra á legg. Sigurður segir stoltur á svip að nú telji fjölskyldan 65 manns. „Ákaflega skemmtilegt fólk margt af því.” Sigurður og Jónína hittust á Þingvöllum árið 1930, hann þá 20 ára og hún 19. Sigurður segir að þau hafi verið miklir vinir frá fyrstu kynnum. „Hún var indæliskona, mikil móðir og einstaklega góð húsmóðir.”

Mikið að heiman
Um tíma stundaði Sigurður sjómennsku frá Sandgerði þegar þau hjónin bjuggu í Hafnarfirði. Sigurður segir að á þessum tíma hafi samgöngur verið slæmar. „Það voru ferðir einu sinni á dag með Steindóri, inneftir á morgnana og suður á kvöldin - það voru ágætis bílar. Þegar maður hætti á vertíð þá fór maður heim og var heima hjá sér í 2 til 3 vikur og fór síðan á Siglufjörð á vertíð fram í september. Maður var að koma heim til sín tvisvar til þrisvar á ári, en svona var þetta í þessa daga. Það var enga landvinnu að fá og ég var í góðu skipsrúmi sem ég vildi ekki  sleppa.”
Sigurður segir að Jónína kona sín hafi fundið hús í Garðinum og þau ákváðu að flytja aftur á heimaslóðir, en Jónína er einnig úr Garðinum. „Við fluttum aftur í Garðinn árið 1936, en þá var maður helv.... sprækur, ekki einu sinni orðinn skollóttur,” segir Sigurður og hlær, en hann hélt áfram að stunda sjómennsku frá Sandgerði og segir hann að heimilislífið hafi með flutningnum orðið mun betra. „Það var ekkert mál fyrir mann að skokka út í Garð frá Sandgerði í landlegum og maður var mun oftar heima hjá sér.”

Saknar samgangs heimilanna
Sigurður segir að honum hafi ekki líkað það illa að búa í Garðinum og hann segir að mannlífið sé gott í bænum. „Núna hef ég ósköp lítið af mannlífinu að segja. En hér áður fyrr kom ég talsvert að sögu verkalýðshreyfingarinnar og var í ungmennafélaginu.” Sigurður segir að samgangur milli heimila sé mun minni nú en áður fyrr. „Ég skal segja þér að kunningsskapur, vinskapur og heimsóknir milli heimila var miklu meira og nánara en núna. Nú kemur enginn maður til annars, hann þarf þess ekki, hann hefur allt saman. Ég sakna sums af þessu. Maður býr við hliðina á fólki í 10 til 15 ár og maður þekkir fólkið ekki neitt, ekki einu sinni í sjón,” segir Sigurður og hann telur að hér áður fyrr hafi fólk fylgst betur með. „Það var algengt að konurnar skruppu í heimsókn til hvor annarrar og það var ekki útvarp. Það varð að fá fréttir sem komu með fólkinu. Maður fylgdist eiginlega betur með, því núna er maður svo ofmettaður af þessu helvítis blaðri alla daga að maður er hættur að taka eftir því.
Þegar útvarpið kom þá settist fólk við og hlustaði. Rétt eftir að við komum hingað út eftir þá fengum við okkur lítið útvarp sem hét Vestri, en þau voru smíðuð hér á landi.”
Sigurður hefur gegnt ýmsum störfum í gegnum tíðina. Um tíma starfaði hann sem vélstjóri í frystihúsi í Garðinum, hann starfaði í aðgerð í landi suma vetur en á sjónum hætti hann árið 1965. „Það ár keypti ég mér vörubíl og var á honum þar til ég hætti að vinna,” segir Sigurður en hann segist hafa keypt vörubílinn til að geta ráðið vinnutíma sínum.

Íbúðir fyrir ellihruma
Á síðustu árum hefur verið mikill uppgangur í Garðinum og mikið byggt af íbúðum og íbúðarhúsum. Þegar Sigurður er spurður út í þetta segir hann hlæjandi. „Já, það er mikið byggt hér, sérstaklega af íbúðum fyrir ellihruma þannig að þetta er að verða eitt stórt elliheimili eða réttara sagt ein stór ellimannanýlenda full af kjaftforum og sæmilega kölkuðum einstaklingum. En það er líka eitt og eitt barn að skjótast út í veröldina hér.”
Sigurður hefur alla tíð haft áhuga á pólitík og hann tekur það skýrt fram að hann hafi verið og sé vinstri maður. „Ég hef alltaf verið helvíti rauður, en á þessum árum var allt sem var rautt slæmt,” segir Sigurður og hann fylgist enn vel með verkalýðsmálum. „Mér finnst kræla á því að það eigi að fara að heimsvæða þrælahald, með því að kaupa menn og selja þá milli landa. Við höfum fundið forsmekkinn af þessu þrælahaldi að Kárahnjúkum. Þeir kalla þetta vinnumiðlun og miðlun er í sjálfu sér fallegt orð þó innihaldið sé djöfulsins eitur.”

Sannfæringin þagnar ekki
Þegar Sigurður er spurður út í pólitíska lífið í Garðinum segir hann að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið yfirgnæfandi og sé enn. „Kratarnir áttu þó alltaf eitthvað fylgi. Við vorum með vinstra félag um tíma, en það var einhvern veginn ekki fylgi fyrir því.” Eins og áður segir er Sigurður harður vinstri maður og segir hann að það hafi ekki orðið honum til framdráttar. „Sannfæring mín þagnar ekki og þetta er sannfæring mín. Þegar ég sé ástandið í veröldinni eins og það er í dag þá er ég harður vinstri maður. Jón Baldvin segir núna þegar hann er kominn frá Ameríku að hann sé  miklu meiri    vinstri maður nú en þegar hann fór og hann er nú glöggur maður þó hann hafi oft skammað okkur,” segir Sigurður brosandi og bætir við. „Halldór Laxness sagði þegar hann var búinn að vera nokkur ár í Ameríku að semja einhverja bókina að hann hafi séð allt það besta og allt það versta. Þaðan kom hann mjög róttækur. Hann var um tíma kommúnisti að ég held, á svipuðu róli og ég. Ég held því ekki fram að það séu mikið betri menn í vinstri arminum en þeim hægri, en það koma alltaf drullusokkar fram sem setja svartan blett á hreyfingarnar.

Alltaf sami æringinn
Þó Sigurður eigi ekki eftir nema 7 ár í að verða hundrað ára þá hefur hann nóg að gera, enda hress maður og alls ekki að sjá að aldarafmælið nálgist óðfluga. Á hverjum degi hnýtir Sigurður á eitthundrað til tvöhundruð króka. „Ég gríp í það á hverjum degi og sit þá hér við þennan glugga og hlusta á útvarpið um leið. Ég hef þetta bara eins og gömlu konurnar þegar þær voru að grípa í prjónana,” segir Sigurður og bætir því við að Óðinn hafi setið við Hliðskjálf og að hann hafi haft tvo hrafna til að flytja sér fréttir. „Ég sit hér við gluggann og fylg-ist með heimsmálunum í gegnum útvarpið og mannlífinu í gegnum gluggann. Hér sit ég líka oft og les. Ég verð að hafa eitthvað fyrir stafni og það gefur mér mikið. Ég var óskaplegur æringi og hafði gaman af því að vera þar sem eitthvað var um að vera. Ætli ég sé ekki enn sami æringinn,” segir hann og hlær dátt.

Fær sér bíltúr
Þrátt fyrir aldurinn keyrir Sigurður enn bíl og finnst honum það nauðsynlegt að komast á milli staða. „Ég kíki oft til Sandgerðis eða Keflavíkur til að spila. En augun eru að bila og augnlæknirinn sagði síðast þegar ég fór til hennar að þetta yrði að öllum líkindum í síðasta skipti sem ég fæ augnvottorð. Og það finnst mér afleitt, en ég fæ að keyra fram í ágúst á næsta ári. Viðbrögðin eru mjög fín og þau eru eins og hjá miðaldra manni,” segir Sigurður en hann fer einnig reglulega í heimsókn í beitningarskúrana til að spjalla við kallana.

Flytur bráðum
Sigurður les mikið og þá sérstaklega af ævisögum og þegar hann er spurður að því hverju hann þakki langlífið og því hve hress hann sé svarar hann. „Það getur vel verið einhver hæfa í því þegar Árni Þórarinsson heldur því fram í ævisögu sinni að hæfilegur skortur í uppeldi gefi fólki lengra líf.”
Að sögn Sigurðar hefur lengi verið rætt við hann um að flytjast á elliheimili, en hann er ekki alveg tilbúinn til þess. „Það er verið að byggja nóg af húsum fyrir gamalt fólk. Ég hef nú alltaf verið vitlaus, en af hverju ætti ég að flytja? Ég er hér í húsi og fæ indælisstúlku til að þrífa hjá mér einu sinni í viku. Hvað væri ég betur settur með að fara í annað hús? Ég á þetta hús og mér hefur liðið vel hérna. Ég sé ekki að mér liði neitt betur við það að flytja. Ég get sagt þér það að gamla fólkið sem er að flytja hingað í parhúsin, það mun ekki heimsækja hvort annað því það er ekki í tísku. Ef þú ferð oft í heimsókn til einhvers þá er álitið að það sé eitthvað gruggugt við það. En ég mun flytja bráðum,” segir þessi gamli grallari með bros á vör.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024