Flugbúðirnar voru algjör snilld
- segir Aron Björn Heiðberg Steindórsson um Flugbúðir Flugakademíunnar sem hann fór í sem barn en hann útskrifaðist á dögunum úr bóklegu atvinnuflugmannsnámi hjá Flugakademíu Íslands.
Aron Björn útskrifaðist nýverið sem atvinnuflugmaður frá Flugakademíu Íslands. Í útskriftarathöfninni uppgötvaðist það fyrir tilviljun að hann væri fyrsti útskrifaði atvinnuflugmaðurinn hjá Flugakademíunni sem byrjaði upphaflega í Flugbúðum Flugakademíunnar sem barn. Aron var aðeins ellefu eða tólf ára gamall þegar hann tók þátt í búðunum en hann fékk undanþágu til þess.
Aron segir Flugbúðirnar hafa verið „algjör snilld“ og mælir með þeim fyrir öll ungmenni sem hafa áhuga á flugheiminum. „Ég man svo sterkt eftir því þegar við fengum að skoða herþotur í skýlinu. Eftir það, og Top Gun að sjálfsögðu, hafa herþotur alltaf vakið sérstakan áhuga hjá mér. Flugbúðirnar voru algjör snilld til þess að fá að kynnast öllu sem fer fram á Keflavíkurflugvelli og í flugi yfir höfuð. Ég mæli 100% með þessu fyrir alla sem hafa einhvern áhuga á þessum heimi,“ segir hann.
Aron hefur alltaf haft mikinn áhuga á flugi en í dag, níu árum eftir Flugbúðirnar, er Aron tuttugu ára útskrifaður atvinnuflugmaður og má með sanni segja að hann sé að upplifa drauminn. „Frá því að ég man eftir mér hef ég alltaf ætlað að verða flugmaður. Þegar ég var í 2.bekk í grunnskóla mætti ég stoltur á öskudaginn í flugmannsbúning. Þegar ég var yngri ætlaði ég að verða flugmaður, flugumferðarstjóri og flugvirki svo að það er öruggt að segja að það hafi alltaf verið draumurinn,“ segir Aron.
Aðeins sextán ára gamall byrjaði hann í einkaflugnámi og nú stefnir hann á að starfa sem atvinnuflugmaður. Hann segir drauminn vera að vinna hjá Icelandair og bætir við: „Ég er alveg viss um að ég verði þar í framtíðinni.“ Þá langar Aroni einnig að læra á þyrlu. „Síðan er þyrluflug eitthvað sem verkur mikinn áhuga hjá mér og dreymir mig um að læra á þyrlu einhvern daginn líka,“ segir hann.
Flugbúðir Flugakademíu Íslands eru ætlaðar ungu fólki á aldrinum þrettán til sextán ára, þær verða næst haldnar 9. – 11. ágúst. Í Flugbúðunum verður farið yfir brot af því besta úr flugtengdum fögum og farið í vettvangsferðir þar sem ungmennin fá að sjá fjölbreytta flóru flugtengdra vinnustaða sem eru almennt lokaðir almenningi.
Nánar um Flugbúðir Flugakademíunnar