Fann hjartaskel með perlu
Magnús Pétur Magnússon Landmark fann hjartaskel sem innihélt perlu þegar hann var í fjörunni á Rauðasandi á dögunum. Þar var hann að safna saman áhugaverðum skeljum ásamt fleirum.
Hjartaskel er útbreidd víða í Norðaustur-Atlantshafi en fannst fyrst við Ísland í Faxaflóa árið 1948. Útbreiðslan hefur aukist mikið síðan þá en er þó bundin við Vesturland. Hjartaskel hefur að öllum líkindum borist til landsins frá náttúrulegu heimkynnum sínum í Vestur-Evrópu með straumum og/eða kjölfestuvatni skipa. Erfitt er að meta áhrif tegundarinnar á lífríkið þar sem skelin finnst alltaf í tiltölulega litlu magni en gæti samt sem áður verið í samkeppni við aðrar samlokur á svæðunum um fæðu og pláss, eins og t.d. sandskel, kúfskel og krókskel og er því mögulega ágeng. segir á vef Náttúrustofu suðvesturlands um hjartaskelina.
Perlan í hjartaskelinni kom ekki í ljós fyrr en farið var að flokka skeljarnar á Barðaströnd. Þá heyrðist eitthvað hringla í skelinni sem var lokuð samloka. Óvíst er hvað gert verður við perluna. Hún er í dag geymd í skartgripaboxi og gæti allt eins endað í fallegu hálsmeni eða öðrum skartgrip, enda perlur sem þessar þekkt skart.