Er einnig til staðar utan skólatíma
Fann nýjar leiðir til þess til að mæta þörfum nemenda.
Náms- og starfsráðgjafar sinna afar mikilvægu starfi í samfélagi okkar, meðal annars innan skólakerfisins. Með því að ræða við þá gefast tækifæri til að skoða og meta eigin stöðu, til dæmis áhuga og hæfni, átta sig á hvaða möguleikar eru í boði og gera áætlun um hvert skal stefna. Að mati náms- og starfsráðgjafa í grunnskólum á Suðurnesjum hefur áhersla breyst á undanförnum áratug úr því að vera það sem lögverndað starfsheiti þeirra gefur til kynna yfir í viðtöl vegna líðan skólabarna. Þessi grein er hluti af fréttaskýringu sem birtist í nýjasta tölublaði Víkurfrétta.
Námsráðgjöf í Akurskóla
Lovísa Hafsteinsdóttir er menntaður tómstunda- og félagsmálafræðingur og hefur starfað við Akurskóla frá stofnun hans. Fyrst sem tómstundafræðingur, byggði upp frístundaskólann og starfaði með unglingum. Hún sá fram á að geta ekki mætt krökkunum innan skólans í gegnum tómstundirnar svo að hún ákvað að læra náms- og starfsráðgjöf.
Fjölbreytt hlutverk
Hlutverk Lovísu eru að kenna náms- og starfsfræðslu, námstækni, leggja fyrir áhugasviðskannanir, aðstoða nemendur sem eru með sértæka námsörðugleika, sjá um sjálfstyrkingarnámskeið og tilfinninganámskeiðið Baujuna, vera með einstaklings- og hópviðtöl, stuðningkerfið Watch fyrir nemendur sem eru í áhættuhóp varðandi brotthvarf og ýmislegt annað í samstarfi við kennara og starfsfólk skólans.
Flott án fíknar
„Starfið er mjög skemmtilegt og fjölbreytt og ég er mikið í málum sem eru einnig utan skólans vegna reynslunnar sem tómstundafræðingur. Ég er að eiga við mál sem koma gjarnan ekki á borð hjá öðrum,“ segir Lovísa. Til dæmis sé hún klúbbstjóri í klúbbi sem heitir Flott á fíknar sem hún stofnaði 2007. Í honum felst að nemendur á unglingastiginu geta skráð sig í klúbbinn og skrifa undir samning þess efnis að þau muni ekki reykja eða neyta vímuefna og í staðinn fá þau umbun í formi viðburða þar sem hist er tvisvar í mánuði og svo lokaferð á vorin. Eina sem þau þurfa að gera er að halda sig frá þessu og þá eru þau gjaldgeng í klúbbinn,“ segir hún og að ef eitthvað gerist segi krakkarnir henni frá því sem gerist utan skóla eða um helgar.
Nær til unglinganna á Facebook
Mál sem koma á borð Lovísu segir hún vera af ýmsum toga og tengjast oftast líðan þeirra eins og slök sjálfsmynd, vinaleysi, brothætt bakland, þunglyndi, kvíði, svefnleysi, tölvufíkn og vímuefnaneysla. „Ég er með Facebook síðu og er þar í samskiptum við krakkana. Set inn efni sem tengjast almennri líðan og góðri sjálfsmynd. Er líka heima á kvöldin að sinna þessu. Ég næ vel til þeirra í gegnum síðuna og spjalla við þau. Þau leita sum til mín beint í pósthólfið þar.“ Lovísa segir stelpur vera opnari á tilfinningar en strákarnir en þeir þurfi kannski aðstoð við að skilningur sé á heimili sínu um að þeir þurfi að fá að fara með í ferðir og slíkt.
Vill vera til staðar fyrir börnin
„Löngun mín með að vera til staðar fyrir unglingana var svo sterk. Vanlíðan þeirra tengdist oft vanlíðan þeirra í skólanum og hendur mínar voru bundnar. Hér var enginn námsráðgjafi og ég fann að þau þurftu slíkan og náði mér þá í menntunina.“ Hún segar að alltaf séu opnar dyr hjá henni fyrir nemendur og hún sé alltaf vakandi yfir því sem gerist. Áhuginn fyrir velferðinni heldur mér gangandi og ég finn fyrir jákvæðri uppskeru. Ég borða oft með þeim í salnum og nota frímínútur til að fylgjast með. Starfsmaðurinn á gólfinu er svo mikilvægur í þessu samhengi,“ segir Lovísa.
Námsgeta, félagar og baklandið
Lovísa vill ekki tengja bara líðan barna við aðstæður í þjóðfélaginu. Kröfur séu kannski settar á nemenda sem honum finnst hann ekki geta mætt. „Þá fer hann í feluleik með líðan sína, skellir sér í hlutverk og slíkt. Við reynum að mæta þeim þarna.“ Hún bætir við að í könnun sem hún gerði, og stór hluti unglinga svaraði, voru niðurstöður áberandi á þá leið að námsgeta og félagsleg staða höfðu mest áhrif á líðan þeirra. „Ef skólastarfið getur mótast af því að barnið sé glatt í skólanum þá líður því vel,“ segir Lovísa með áherslu og bætir við að félagslega sterkur einstaklingur geti allt í lífinu.
Of fáir menntaðir námsráðgjafar
Þá hefur Lovísa einnig sterka skoðun á starfi starfs- og námsráðgjafa. „Mér finnst starfið okkar eitt af mikilvægustu störfum innan grunnskólanna og skil því ekki hvernig skólarnir geta komist af með námsráðgjafa í 30-40% starfi. Það eru bara þrír slíkir menntaðir í grunnskólum í Reykjanesbæ og það er eitthvað sem við þurfum að bæta í bæjarfélaginu,“ segir Lovísa að lokum.