Einkaþjálfari í fjármálum
Ráðgjafi hjá Reykjanesbæ gefur út bók og kennir fólki nýjar venjur og viðhorf.
Aðalstarf Hauks Hilmarssonar er ráðgjafi hjá fjölskyldu- og félagsþjónustu Reykjanebæjar. Hann hefur einnig kennt fjármálahegðun við Háskóla Íslands og vegna góðrar þátttöku mun hann gera það aftur næsta haust. Nýlega gaf Haukur út verkefnabókina Betri fjármál og hefur opnað ráðgjöf í fjármálahegðun (financial therapy) með því markmiði að aðstoða fólk við að ná tökum á fjármálum sínum gegnum venjur og hegðun.
„Í starfi mínu hjá Reykjanesbæ hef ég sannarlega fundið þörf fyrir svona þjónustu. Ég lærði 'financial social work', sem er hin hliðin á fjármálum - ekki bókhaldið. Það er fólkið, tilfinningar þess og upplifun. Við erum svo vön fjármálunum okkar; förum út í búð og kaupum eitthvað sem okkur finnst gott eða flott en ekki endilega hagkvæmt. Við drögum tilfinningar okkar inn í öll fjármál og þegar þær eru orðnar þannig að við óttumst fjármálin, skuldirnar eða bankann, þá eru meiri líkur á að fólk einangri sig og líti framhjá fjármálum,“ segir Haukur. Ákjósanlegt væri að haga sér eins og banki, vera ‘nördar’ með excel skjal. „Við þorum það bara ekki því við höldum að það sé svo erfitt, sem það er alls ekki. Ráðgjöfin mín gengur út á að hvetja fólk og gefa því réttu verkfærin. Fólkið vinnur svo fjármálin sín sjálft, tekur eigin ákvarðanir og ber ábyrgð á þeim. Þegar sigrar eru unnir þá byggist svo mikið upp og viðhorfið til heimabankans breytist.“
Nær fyrr árangri
Haukur vil leggja áherslu á tilfinningar fólks í fjármálum og hann segir að eiginlega hugsi hann um fjármálaheilsu. „Langoftast hefur fólk ekki fengið verkfæri til bæta þessa heilsu. „Þegar fólk í ræktina getur það keypt bók og farið eftir henni eða hermt eftir öðrum. Ef það fær sér einkaþjálfara þá nær það miklu fyrr árangri vegna þess að það fær leiðsögn um hvernig á að gera rétt og forðast meiðsli. Ég er svolítið svona einkaþjálfari í fjármálum,“ segir hann brosandi.
Gengur mikið út á vanann
Það er ekki bara fólk með lágar tekjur sem ekki nær endum saman. Haukur segir fólk í fullu starfi með góð laun líka vera í slíkri stöðu. „Það klárar launin sín og þarf að borga með kreditkortii þegar það fer til tannlæknis vegna þess að það hefur ekki lært að skipuleggja fjármálin rétt. Þetta hefur ekkert að gera með greind, þekkingu eða færni. Þetta er bara vani. Fólk fer til sálfræðings eða félagsráðgjafa til að ræða sína heilsu, félagslega stöðu, andlega líðan og slíkt. Svo fer það í bankann til að ræða fjármálin. Ég vil tengja þetta saman þannig að hægt sé að ræða fjármálin við mig og upplifunina af þeim. Stefna mín er að kenna öðrum að hjálpa fólki á þennan hátt svo að það fari sem víðast,“ segir Haukur.
Viðtöl og verkefni
Hjá Hauki fær fólk tækifæri til að endurskoða neysluvenjur og taka síðan upplýstar ákvarðanir um breytingar á hegðun og hugarfari gagnvart fjármálum sínum. Ráðgjöfin er í formi viðtala og verkefna sem tengjast fjármálum. Einnig er hægt að kaupa verkefnabókina Betri fjármál og vinna verkefnin á eigin spýtur. Haukur er með BA próf í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands og vottaður fjármálafélagsráðgjafi (Financial Social Worker) frá Center of Financial Social Work, Norður Karólínu, Bandaríkjunum. Allar nánari upplýsingar um ráðgjöfina og viðtalsbókanir er að finna á www.skuldlaus.is.
VF/Olga Björt