Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Átta ára rithöfundur
Bragi hefur þegar sent frá sér bókina Ömurleg helgi hjá Pétri. VF-mynd/hilmarbragi
Laugardagur 19. mars 2016 kl. 06:00

Átta ára rithöfundur

- Sendi frá sér 44 síðna bók um bræður

Bragi Hilmarsson, 8 ára nemandi í 3. bekk í Stóru-Vogaskóla í Vogum, gaf á dögunum út sína fyrstu bók. Bókin heitir Ömurleg helgi hjá Pétri og fjallar um drenginn Pétur sem er sífellt er stríða Óla bróður sínum. Bókin er 44 síður og eru tvö eintök til útláns á Bókasafninu í Vogum. Kennari Braga er þessa dagana að lesa bókina fyrir 3. bekk. Bragi segir gaman að hlusta á lesturinn enda sé hann eiginlega búinn að gleyma því hvernig bókin byrjaði.

Bragi segir söguna uppspuna og ekki endurspegla samskipti hans við bróður sinn. Aðspurður að því hvaðan hugmyndirnar komi kveðst hann ekki alveg viss. „Ég byrjaði að finna nöfn á persónurnar og svo byrjaði ég bara að skrifa,“ segir hann. Í framtíðinni dreymir Braga um að verða fótboltamaður en segir aldrei að vita nema hann fáist líka við skrif. Bragi er þegar byrjaður á næstu bók sem ber titilinn Annar í jólum hjá Pétri. Bragi skrifar sögurnar í tölvu og segir það ekkert svo erfitt að nota fingrasetningu á lyklaborði og skrifa rétt.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Duglegir lestrarhestar í 3. bekk

Drífa Thorstensen er umsjónarkennari 3. bekkjar í Vogum. Hún hefur beitt áhugaverðum aðferðum til að efla áhuga nemendanna á læsi. „Ég held að þetta hafi byrjað með aðferðafræðinni „Pals“ þar sem nemendur lesa saman tveir og tveir,“ segir hún. Aðferðin byggist á því að þeir nemendur sem eru paraðir saman eru mis sterkir í lestri. Sá sem er kominn lengra í lestri les fyrst texta upphátt. „Þannig fær hinn smjörþefinn af efninu áður en röðin kemur að honum. Sterkari lesararnir eru farnir að leiklesa og hin gera eins og þannig hjálpast þau að,“ útskýrir Drífa.

Drífa hefur einnig nýtt aðferðina „Að skrifa sér til læsis“ sem gengur út að vinna mikið með texta í tölvu, nota lyklaborðið og tileinka sér lestur með því að vinna með bókstafina. Hún segir algengt að nota aðferðina þrisvar sinnum í viku yfir afmarkað tímabil en að hún noti hana þrisvar sinnum í viku alla önnina. „Nú er aðferðin hluti af rútínunni hjá okkur. Mér finnst hún hafa hjálpað nemendunum og eflt þau.“

Nemendurnir í 3. bekk, og þar sem talinn Bragi, hafa skrifað sögur í hverri viku síðan í 1. bekk. Þá handskrifuðu þau sögurnar en notast núna meira við lyklaborð og tölvur. „Með tölvunum kemur mikill áhugi hjá þeim. Þá eru þau ekki eins mikið að einbeita sér að skriftinni, heldur að hugsa um að koma hugsuninni frá sér og ekki að pæla í því hvernig stafirnir líta út. Þeir koma réttir eins og í texta í bókum.“

Drífa tekur Braga sem dæmi um það hvernig nemendurnir læra hver af öðrum. „Áhuginn hjá honum hafði áhrif svo hinir nemendurnir fóru að gera eins og hann. Nú er þetta orðið þannig að einn lærir eitthvað og miðlar þeirri þekkingu til næsta. Þau eru mjög áhugasöm. Getan skiptir engu máli og hver gerir sitt á sínum forsendum.“