Vel heppnað 17. júní hlaup UMFN
Hið sögulega 17. júní hlaup Ungmennafélags Njarðvíkurfór fram á þjóðhátíðardaginn. Hlaupið var númer 39 í röðinni en það hafði verið í dvala í nokkur ár. Samkvæmt venju var hlaupið frá Stapanum og boðið var uppá tvær vegalengdir, 1 km sem er krakkahlaupið og 5 km sem er fyrir 14 ára og eldri.
Fyrst í mark í 5 km hlaupinu voru þau Magnús Harðarson í karlaflokki og Guðlaug Sveinsdóttir í kvennaflokki. Magnús hljóp vegalengdina á 20,10 mín og Guðlaug á 21,56 mín. Í 1 km hlaupinu voru það Elín Bjarnadóttir og Viktor Logi Sighvatsson sem komu fyrst í mark.
Hátt í 60 manns tóku þátt í hlaupinu að þessu sinni í góðu hlaupaveðri. Heimasíða umfn.is greinir frá.