Vefmyndavél sett upp í Leiru: Eitt stærsta mót ársins á Hólmsvelli um helgina
Vefmyndavél hefur verið sett upp á klúbbhúsið í Leirunni og sýnir „lifandi“ mynd yfir völlinn með 18. flötina í forgrunni. Hægt verður að fylgjast með 200 keppendum á Íslandsmóti 35 ára og eldri sem fram fer á Hólmsvelli fimmtudag til laugardags ljúka leik við 18. flöt.
Golfklúbbur Suðurnesja og Securitas sameinuðust um þetta verkefni en myndin úr Leirunni, sem sést hér á síðunni, (smellið á mynd til vinstri á forsíðu kylfingur.is) er úr IP myndavél sem Securitas Reykjanesi hefur komið fyrir við golfskálann í Leiru.
„Það er von okkar að kylfingar noti þessa þjónustu en með því að smella á myndina á forsíðu kylfings.is er hægt að fylgjast með kylfingum og veðrinu sem er oft mjög gott í Leirunni,“ sagði Kjartan Már Kjartansson, gjaldkeri GS og framkvæmdastjóri Securitas á Reykjanesi.
Það má búast við spennandi keppni á Íslandsmóti 35 ára og eldri í Leirunni næstu þrjá daga enda margir góðir kylfingar meðal þátttakenda, m.a. fyrrverandi meistarar, Sigurbjörn Þorgeirsson og Ólafur Hreinn Jóhannesson. Margir telja þá líklega til afreka en Guðmundur Rúnar Hallgrímsson, klúbbmeistari GS 2009 og varð í 2. sæti í síðustu viku, keppir nú í fyrsta sinn í mótinu. Hann þekkir Leiruna betur en margir og mun án efa verða í toppbaráttunni.
Í kvennaflokki mætast tveir gamlir Íslandsmeistarar, Þórdís Geirsdóttir sem unnið hefur 35 ára mótið og Herborg Arnardóttir sem nú keppir í fyrsta sinn. Hólmsvöllur skartar nú sínu fegursta og er í frábæru standi og ljóst að kylfingar munu njóta golfs næstu daga en veðurspáin er mjög góð.
Frekari upplýsingar um myndavélina fást hjá Securitas Reykjanesi í síma 5807000.