Varði nokkra bolta frá Gylfa
- 17 ára Keflvíkingur æfði með A-landsliðinu í Garðinum
Keflvíski markvörðurinn Sindri Kristinn Ólafsson varð þess heiðurs aðnjótandi að fá að æfa með bestu knattspyrnumönnum landsins, þegar A-landslið karla í knattspyrnu var við æfingar í Garðinum um helgina. Sindri sem er 17 ára leikmaður með 2. flokki Keflavík/Njarðvík fékk símtal frá Kristjáni Keflavíkurþjálfara kvöldið fyrir æfinguna en svo hafði Guðmundur Hreiðarsson markmannsþjálfari landsliðsins samband í kjölfarið. „Þetta var hrikalega mikil upplifun og stórt tækifæri sem ekki allir fá,“ sagði Sindri glaður í bragði þegar Víkurfréttir heyrðu í honum hljóðið. Sindri segir landsliðsstrákana hafa tekið honum opnum örmum. „Þeir voru allir mjög almennilegir og gáfu sig allir á tal við mig. Hallgrímur Jónasson fyrrum Keflvíkingur var mér þarna innan handar og allir voru mjög fínir,“ segir markvörðurinn efnilegi sem hefur verið á bekknum hjá Keflvíkingum í Pepsi-deildinni nokkrum sinnum á tímabilinu til þessa.
Gaman að vera í kringum þessa bestu fótboltamenn Íslands
„Þetta voru aðeins betri leikmenn en maður er vanur að fást við dags daglega. Þeir eru hrikalega góðir,“ segir markvörðurinn ungi. Sindri er hógvær og jarðbundinn en viðurkennir þó að hafa kannski varið einn og einn bolta frá mönnum eins og Gylfa Sigurðssyni. Sindri á að baki þrjá leiki fyrir 17 ára lið Íslands en hann segir að umgjörðin sé mun stærri og fagmannlegri. „Það dreymir alla stráka og stelpur um að spila fyrir A-landsliðið einn daginn. Þetta er auðvitað bara ein æfing af vonandi mörgum í framtíðinni. Maður á ekkert að vera að fara fram úr sér og halda að maður sé orðinn bestur, það er langt því frá. Það er fyrst og fremst gaman að vera í kringum þessa bestu fótboltamenn Íslands enda mjög stórt tækifæri.“
Sindri segir að Guðmundur Hreiðarsson markmannsþjálfari hafi verið afar hjálpsamur enda sé hann hokinn af reynslu. „Þetta er mjög hvetjandi fyrir mig og gefur mér eitthvað til þess að byggja á. Maður heldur áfram að einbeita sér að Keflavík og gera vel þar.“ Það vantar ekki reynslumikla markmenn í kringum Sindra, en hinn sænski Jonas Sandqvist markvörður Keflavíkurliðsins á m.a. að baki landsleik fyrir Svíþjóð. „Það er mjög stórt afrek og hann er duglegur að segja mér til,“ segir þessi efnilegi markvörður að lokum.
Sindri eftir æfinguna í Garðinum.