Útlendingadramatík í körfunni: Bradford leikur með Keflavík – Burns frá vegna meiðsla
Nick Bradford sem lék með Njarðvík í vetur leysir Draelon Burns af hjá Keflavík því sá síðarnefndi er mikið meiddur. Það fékkst staðfest nú rétt áðan. Það er því óhætt að segja að fjörið haldi áfram í leikmannamálum liðanna í úrslitakeppninni í Iceland Express deildinni í körfu.
Bradford verður því með sínum gömlu félögum í Keflavík á morgun. Hann var með liðinu þegar það varð Íslandsmeistari 2005. Nick fær meðal annars það verkefni að stöðva Sigurð Þorvaldsson Hólmara sem fór á kostum í síðasta leik.
Gárungarnir hafa leikið sér með þessi leikmannamál. Njarðvíski þjálfarinn Einar Árni hjálpaði Hólmurum að fá Jebb Ivey og hinn kunni stjórnarmaður hjá UMFN, Erlingur Hannesson ók kappanum til Reykjavíkur frá Leifsstöð þar sem flugvél flutti hann í Hólminn. Ekki brostu allir Keflvíkingar yfir þessari óvæntu aðstoð Njarðvíkinga en það breyttist aftur þegar þeir þurftu að fá samþykkt félagsskipti fyrir Nick hjá þeim grænu. Njarðvíkingar að komu því óvænt að málum í úrslitakeppninni án þess að vera inni á leikvellinum.
Það stefnir því allt í enn meira fjör í Toyota höllinni í Keflavík á morgun.
VF-mynd/Páll Orri: Bradford og Burns á vellinum saman í vetur. Nú fer Bradford aftur í Keflavíkurbúninginn.