UMFG: Bailey farinn, Helgi Jónas hættur í bili
Mikil umskipti urðu hjá toppliði Grindavíkur í körfuknattleik þegar Bandaríkjamanninum Damon Bailey var sagt upp störfum í dag. Auk þess tilkynnti Helgi Jónas Guðfinnsson að hann hefði tekið sér frí frá keppni og æfingum um óákveðinn tíma.
Brotthvarf Helga hefur það í för með sér að Grindvíkingar verða að fá sér bakvörð og hafa þegar ráðið Jeremiah Johnson sem mun leika með þeim gegn ÍR á morgun. Tekið er fram í tilkynningu á umfg.is að uppsögnin sé ekki vegna frammistöðu Baileys.
Í yfirlýsingu frá Helga Jónasi segri enn fremur: "Mér hefur ekki liðið eins vel í bakinu í 3 ár og því hef ég frá því í sumar verið mjög bjartsýnn á að geta verið með af 100% krafti í vetur. En sökum persónulegra aðstæðna þá sé ég mér ekki annan kost vænan en að draga mig í hlé um óákveðinn tíma. Ég styð þessa ákvörðun Frikka þjálfara og stjórnarinnar heilshugar og vonast eftir því að geta byrjað sem fyrst af fullum krafti og hjálpað liðinu við að vinna titla í vetur. En því miður er staðan hjá mér svona núna og ég vona að fólk virði það við mig. Körfuboltakveðja, Helgi Jónas Guðfinnsson."