U-17 tapaði fyrir Spáni - Vorum of stressaðar en ætlum að taka 3. sætið - sagði Arna Lind
Nú fyrir skömmu lauk undanúrslitaleik Íslendinga og Spánverja á Evrópumóti kvenna í hópi 17 ára og yngri í Sviss. Spánverjar sem eru ríkjandi Evrópueistarar höfðu öruggan 4-0 sigur og lék Arna Lind Kristinsdóttir úr Keflavík í markinu allan leikinn. Arna átti ekki sinn besta dag en Ingibjörg Yrsa Ellertsdóttir úr Grindavík fékk að spreyta sig í síðari hálfleik í dag en náði ekki að setja mark sitt á leikinn.
„Þær spænsku héldu boltanum. Við vorum að spila langt undir getu og vorum alltof stressaðar á boltann. Við vorum ekkert lélegra liðið, þessar stórþjóðir eru ekkert betri en við. Við ætlum að vinna leikinn um 3ja sætið, spila okkar bolta og sigra. Samheldnin er okkar helsti styrkur og svo erum við búnar að skora mörg mörk og fá á okkur fá í þessari Evrópukeppni. Þegar þessi dagur er búinn, þá er þessi leikur búinn. Ég er mjög bjartsýn á næsta leik,“ sagði hin keflvíska Arna Lind Kristinsdóttir, markvörður landsliðsins eftir leikinn í dag.
Íslendinga munu leika um þriðja sæti mótsins á sunnudag gegn annað hvort Þýskalandi eða Frakklandi.