Kvenfélag Keflavíkur
Kvenfélag Keflavíkur

Íþróttir

Tveir titlar í augnsýn
Fimmtudagur 20. september 2007 kl. 11:27

Tveir titlar í augnsýn

Suðurnesjamennirnir Gunnar Gunnarsson og Páll Pálsson eiga það ekki einungis sameiginlegt að heita það sama og feður sínir heldur munu kapparnir gera harða atlögu að Íslandsmeistaratitlinum í torfæruakstri um helgina. Síðasta og stærsta torfærukeppni ársins fer fram á Hellu um helgina þar sem Gunnar keppir í sérútbúnum flokki en Páll í götubílaflokki. Báðir eru þeir Gunnar og Páll efstir að stigum fyrir lokamótið og þykja því sigurstranglegir um helgina.

 

Jafnframt því að vera síðasta mótið hér heima í sérútbúnum flokki er einnig keppt í heimsbikarnum í torfæru þar sem Íslendingar segja farir sínar ekki sléttar. Gunnar er efstur með 8 stiga forystu á Íslandsmótinu en vonir hans um að verða heimsbikarmeistari eru nánast orðnar að engu. ,,Ég þarf að vinna keppnina og efsti maður þar þarf helst að lenda í 8. sæti eða neðar bæði á laugardag og sunnudag til þess að ég eigi séns á heimsbikarnum. Það verður bara allt lagt undir um helgina og að helginni lokinni verður nægur tími til að gera við bílinn,” sagði Gunnar sposkur og ljóst að hann ætlar sér mikið á Hellu.

 

Páll Pálsson hefur búið í fjögur ár í Vogum en hann er 32 ára gamall og sagði Víkurfréttum í léttum dúr að hann hefði flúið Reykjavík og kunni vel við sig í Vogum ásamt eiginkonu sinni og þremur börnum. Páll er efstur í götubílaflokki fyrir keppnina á Hellu en þar er spennan gríðarleg þar sem aðeins munar 2 stigum á Páli og félaga hans í 2. sæti mótsins. ,,Í svona keppnum má ekkert klikka, það er öruggast að klára í 1. sæti á Hellu,” sagði Páll sem ekur á Willis jeppa sem er árgerð 1966 með tæplega 350 hestafla vél.

 

,,Bíllinn er sjálfskiptur og búið að stækka undir honum hásingarnar og smíða í hann gormafjöðrun til að gera hann skemmtilegri í svona keppnum,” sagði Páll en helsti munurinn á götubílaflokki og sérútbúnum flokki er sá að bílarnir í götubílaflokki þurfa að standast venjulega bifreiðaskoðun. ,,Sérútbúnir eru einnig með mun meira vélarafl, meiri fjöðrun og keyra á skófludekkjum. Þá eru brautirnar í götubílaflokki þannig gerðar að maður getur ekið þær án þess að eiga það á hættu að fara með bílinn heim í plastpoka,” sagði Páll léttur í bragði.

 

Pressan á Páli verður töluverð um helgina þar sem allir vilja leggja hann að velli. Páll segir það ekki koma að sök því hans helstu keppinautar séu jafnframt hans bestu vinir. ,,Þetta verður bara gaman og hver sem vinnur þá verður titillinn innan vinahópsins. Það verður mikið um að vera á Hellu um helgina og yfir 30 bílar skráðir til leiks og gömul nöfn að koma aftur inn í sportið,” sagði Páll. Mögulegt er því að tveir Íslandsmeistaratitlar í torfæruakstri komi til Suðurnesja í ár svo það er ekki úr vegi að gera sér ferð til Hellu um helgina og styðja við bakið á strákunum.

 

[email protected]