„Þurfum að stoppa Walker“ - Njarðvík mætir KR í kvöld
„Við erum spenntir fyrir fyrsta leik en þetta er gífurlega erfitt verkefni að fá ríkjandi bikarmeistara í fyrstu umferð,“ sagði Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkur. Njarðvíkingar mæta bikarmeisturum KR í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í Iceland Express deild karla í kvöld. Leikurinn fer fram í DHL höllinni í Vesturbænum og hefst hann á slaginu kl. 19:15.
„Ástandið á leikmönnum er nokkuð gott miðað við aldur og fyrri störf. Við erum með háaldraða menn sem þarf að fara vel með en annars er hópurinn í fínu standi. Jonathan hvíldi í ferbúar og er hann kominn í gott form en Gummi verður ekki hundrað prósent í þessari úrslitakeppni. Hann mun þó vera í botni þær mínútur sem hann spilar,“ sagði Einar.
KR hefur ekki tapað nema einum leik á heimavelli. „Við þurfum klárlega að leggja þá í Vesturbænum til að komast upp úr þessari umferð og verður það erfitt en við verðum að stoppa hraðaupphlaupin hjá Marcus Walker. Hann fær alltof margar auðveldar körfur og er það bara liðsvinna sem við þurfum að tækla.“
[email protected]