Þróttmikið starf hjá Nes á vorönn
Heilmikið hefur verið að gerast hjá íþróttafélaginu Nes eftir áramót. Eins og fram hefur komið var skipt um stjórn í félaginu í byrjun ársins. Af þeim sökum vannst ekki tími til að halda hið árlega fyrirtækjamót sem verið hefur í janúar. Æft var fjóra daga vikunnar og boðið upp á boccia, sund, knattleiki og frjálsar íþróttir. Foreldraráð tók til starfa í vetur hjá félaginu sem er kærkomin nýjung í Nes. Frjálsíþróttamót ÍF var haldið í febrúar og átti Nes þar allstórann hóp keppenda og sópaði að sér verðlaunum eins og fram hefur komið í VF. Íslandsmót í boccia sveitakeppni var haldið í mars. Þar átti Nes 5 sveitir í 1. deild, 3 sveitir í 2. deild, 3 sveitir í 3. deild og 1 sveit í rennuflokki. Þetta móty gekk mjög vel hjá nesurum þó svo að íslandsmeistaratitlarnir hafi ekki skilað sér að þessu sinni. Hængsmótið var að venju í kringum 1. maí á Akureyri. Þar átti Nes 35 keppendur í borðtennis, þar sem Nes náði 3 meistaratitlum, boccia, þar sem Nes náði 2. sæti í sveitakeppni og 4. sæti í einstaklingskeppni og knattspyrnu, þar sem Nes náði 2. sæti í A-flokki og 3.sæti í B-flokki. Ferðin tókst mjög vel í alla staði og áttu foreldrar sem fóru með í ferðina stórann þátt í því. Sundmót Nes var svo haldið með pomp og prakt 4. maí í íþróttahúsinu við Heiðarskóla. Þar var keppt í þremur getuhópum og gátu allir félagar sem æfa njá Nes tekið þátt í mótinu. Uppskeruhátíð félagsins var svo haldin 11.maí í Njarðvíkurskóla. Á hátíðinni voru heimatilbúin skemmtiatriði, söngur, grillveisla, félagið fékk viðurkenningu sem FYRIRMYNDAFÉLAG fyrst allra félaga innan Íþróttasambands Fatlaðra eins og fram hefur komið í VF, veittar viðurkenningar fyrir góða frammistöðu í íþróttum, félagslegri framkomu, sölumennsku svo eitthvað sé nefnt. Eins og sjá má er þetta búinn að vera líflegur vetur hjá Nes og mikill kraftur í starfinu enda kraftmikil stjórn og þróttmikið foreldrastarf í fylkingarbrjósti.