Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Þetta hefst, er það ekki?
Miðvikudagur 4. apríl 2007 kl. 15:18

Þetta hefst, er það ekki?

Hinn fornfrægi knattspyrnuvöllur Njarðvíkinga er nú nánast horfinn undir byggð Nesvalla, íbúðabyggð með sérhönnuðum íbúðum fyrir eldra fólk ásamt félags- og þjónustumiðstöð. Njarðvíkingar skildu við völlinn með miklum sóma og krýndu hann sterkasta heimavöll ársins 2006 þar sem þeir töpuðu ekki leik á vellinum á síðustu leiktíð. Fyrir liggur að Njarðvíkingar leiki í eyðimörkinni sem er framtíðar Íþrótta- og útivistarsvæði Reykjanesbæjar en þar gefur í dag að líta grasvöll sem er rúmir tveir knattspyrnuvellir að stærð, annað er ekki að finna. Njarðvíkingar hafa þegar fengið þátttökuleyfi samþykkt í sumar frá Knattspyrnusambandi Íslands og verður fyrsti heimaleikur liðsins í 1. deildinni gegn KA þann 18. maí.

 

Svo gæti farið að Njarðvíkingar myndu leika sinn fyrsta heimaleik á Keflavíkurvelli en það væri þá aðeins fyrsti leikurinn. Hið nýja keppnissvæði Njarðvíkinga var undirbyggt og tyrft síðasta sumar og um síðustu áramót kom það í ljós að hönnunarvinna við nýtt vallarhús væri það skammt á veg komin að ekki næðist að koma því á fót fyrir leiktíðina þetta árið. Reykjanesbær hét því að svæðið myndi uppfylla kröfur leyfiskerfis KSÍ fyrir þessa leiktíð og varð lausnin sú að kaupa fjóra sumarbústaði af byggingarfyrirtækinu Nýtt hús. Bústaðirnir eru í byggingu þessa stundina og verður samanlögð heildarstærð þeirra rúmlega 300m2. Í þessu skammtíma vallarhúsi, sem er nokkuð stærra en gamla vallarhúsið við gamla völlinn, verða þrír búningsklefar, dómaraherbergi, þjálfaraherbergi, boltageymsla, búninga- og þvottaaðstaða, aðstaða fyrir veitingasölu, skrifstofa og um 70m2 salur undir félagsstarf og aðra viðburði. Húsið mun verða staðsett við Norður-enda keppnissvæðisins.

 

Keppnisvöllur Njarðvíkinga verður staðsettur á svæðinu sem liggur hvað næst efstu húsunum í Móahverfinu í Njarðvík. Við völlinn verður stúka sem rúmar 400 manns í sæti. Stúka þessi varð eftir þegar Varnarliðið hvarf af landi brott og var notuð við íþróttasvæðin á Keflavíkurflugvelli og ku vera í fínu ásigkomulagi.

 

Unnið er að frágangi á veg sem liggur frá Hjallavegi að Reykjaneshöll ásamt bílastæðum.

Á heimasíðu Njarðvíkinga kemur fram að reiknað sé með því að allt verði þetta hér að ofantöldu tilbúið fyrir þennan fyrsta heimaleik þann 18. maí sem þýðir að það eru 27 vinnudagar til stefnu frá og með deginum í dag.

 

Undirritaður kemst ekki hjá því að vera örlítið vantrúaður innan þessa 27 daga ramma. Sérstaklega þegar ekkert nema grasbletturinn sjálfur er til staðar á keppnissvæði Njarðvíkinga þegar þetta er ritað. Hafa má hraðar hendur í verki næstu daga ef aðstaða Njarðvíkinga á að vera fullnægjandi fyrir leyfiskerfi KSÍ fyrir fyrsta heimaleik.

 

Hins vegar er skemmst að minnast á framkvæmdahraðann við Reykjaneshöllina á sínum tíma og er keppnissvæði Njarðvíkinga aðeins brotabrot af þeirri framkvæmd svo þetta ætti að hafast, er það ekki?

 

Mynd: www.umfn.is - Svona er umhorfs á keppnissvæði Njarðvíkinga í dag.

 

[email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024