„Þetta er aðallega hugarfarsleysi“
-Segir Einar Einarsson, þjálfari Grindvíkinga.
Óhætt er að segja að ekki hafi blásið byrlega fyrir Grindvíkinga undanfarið og sitja þeir nú í 9. sæti Intersport-deildarinnar og eru dottnir út úr bikarkeppninni. Einar Einarsson tók við þjálfarastöðunni eftir að Kristni Friðrikssyni var sagt upp störfum en hann hefur ekki náð að bæta gengi liðsins.
„Vandamálin hafa verið af ýmsum toga hjá okkur og það tekur tíma að vinna úr þeim,“ sagði Einar er Víkurfréttir inntu hann út í gengi liðsins. „Þetta er aðallega hugarfarsleysi. Menn eru ekki að gefa nógu mikið af sér og það er það sem hefur vantað hjá okkur. Það er þessi liðsheildarbragur sem er ekki til staðar eins og er og það eru of mörg ÉG í þessu hjá okkur. Við vitum af þessu og erum að vinna úr því að bæta úr því.“
Erfið dagskrá er framundan hjá Grindvíkingum þar sem þeir mæta Skallagrími í Röstinni á morgun og svo mæta þeir Njarðvíkingum í Ljónagryfjunni á miðvikudag. Einar segist ekki vera farinn að hugsa um Njarðvíkurleikinn því hann taki einn leik fyrir í einu.
„Nú er skorið úr um það hvort við ætlum að vera að berjast um sæti í úrslitunum eða vera í fallbaráttunni. Það þarf ekki mikið til að koma sér á beinu brautina, en maður verður að vinna fyrir því. Við ætlum að snúa þessu við og byrja hér á heimavelli á föstudaginn.“