Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Það er svo miklu meira undir núna en bara montrétturinn
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
þriðjudaginn 29. mars 2022 kl. 21:53

Það er svo miklu meira undir núna en bara montrétturinn

Benedikt Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkinga, spáir UMFN Íslandsmeistaratitli í karla- og kvennaflokki.

„Það þarf líka að ala upp næstu kynslóðir. Þjálfun gengur út á það að skila leikmönnum upp í meistaraflokkana og hér eru margir áhugasamir og efnilegir strákar. Körfuboltinn er klárlega búinn að vera á uppleið í mörg ár. Iðkendur eru alltaf að verða betri, íþróttin að verða vinsælli og fær meira áhorf og fleiri styrktaraðila með hverju árinu. Kakan er alltaf að stækka og körfuboltaíþróttin er orðin fjandi myndarleg kaka í dag,“ segir Benedikt Rúnar Guðmundsson, þjálfari meistaraflokks karla hjá Njarðvík, þegar Víkurfréttir hittu á hann í Ljónagryfjunni þar sem hann var að þjálfa stráka í sjöunda og áttunda flokki.


Nú lýkur deildarkeppninni í þessari viku og úrslitakeppnin í Subway-deildunum er rétt handan við hornið. Í lokaumferð Subway-deildar karla mætast nágrannafélögin og erkióvinirnir Njarðvík og Keflavík sem hafa bæði að miklu að keppa. Keflavík er í þriðja sæti og Njarðvíkingar eru í kjörstöðu til að vinna deildina eftir að Þórsarar frá Þorlákshöfn töpuðu fyrir Tindastóli í næstsíðustu umferð en þeir höfðu tveggja stiga forskot fyrir þann leik. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Þessi deild er nú bara svona – hvaða leikur sem er getur farið hvernig sem er. Það er ekkert í hendi,“ segir Benedikt.

Nú er þetta í ykkar höndum.

„Já, þetta flakkar á milli handa. Fyrst var þetta í okkar höndum, svo í þeirra höndum [Þórs Þorlákshöfn] – og núna er þetta aftur í okkar höndum.“

Það má reikna með hörkuleik á fimmtudaginn þegar Njarðvík og Keflavík mætast.

„Burtséð frá þessari stöðu þá má alltaf reikna með hörkuleik þegar þessi lið mætast en ég held að deildarleikur milli þessara tveggja félaga hafi aldrei verið eins stór og leikurinn á fimmtudaginn verður. Þetta er gríðarlega þýðingarmikill leikur fyrir bæði lið, við erum að berjast um fyrsta sætið og þeir eru að berjast um þriðja sæti og heimavallaréttinn. Þannig að það er svo miklu meira undir núna en bara montrétturinn og stigin tvö.“

Það hefur orðið gríðarlegur viðsnúningur á gengi Njarðvíkinga á einu ári en í fyrra voru þeir í bullandi fallbaráttu. Síðan þá hefur bikarmeistaratitill bæst í safnið og þeir eru efstir í deildinni. Þið eru ekki orðnir saddir núna, eða hvað?

„Nei, alls ekki. Mikið hungur í hópnum og vonandi getum við stillt fljótlega upp okkar sterkasta liði. Það er möguleiki á öðrum titli hérna og í meistaraflokki snýst þetta um að ná í titla. Við ætlum klárlega að leggja allt í sölurnar til að fá þennan bikar. Ef það tekst ekki, „so be it“, en við munum gera allt sem við getum.“

Að lokum, hverjum spáir þú Íslandsmeistaratitlum karla og kvenna í ár?

„Ég get nú ekki annað en spáð okkur sigri, kannski er það bara óskhyggja en ég vona að Njarðvík vinni báða titlana,“ segir Benedikt að lokum.

Tengdar fréttir