Afleitur seinni hálfleikur kostaði Keflavík leikinn
Keflvíkingar misstu flugið eftir spennandi fyrri hálfleik þegar þeir tóku á móti ÍR í Subway-deild karla í körfuknattleik fyrr í kvöld. Keflavík hafði náð sjö stiga forskoti í fyrri hálfleik en þegar leikurinn var á enda höfðu ÍR-ingar tryggt sér sautján stiga sigur, 77:94.
Keflavík - ÍR 77:94
(27:21, 22:21, 13:24, 15:28)
Keflavík byrjaði betur og eftir fyrsta leikhluta leiddu þeir með sex stigum (27:21). ÍR sótti í sig veðrið í öðrum leikhluta en Keflavík hélt sínu forskoti og jók það reyndar um eitt stig, staðan 49:42 fyrir heimamenn.
Það var allt annað Keflavíkurlið sem mætti í seinni hálfleikinn, þeir gerðu fyrstu stigin og juku forystuna í níu stig (51:42) en síðan fór að halla undan fæti og gestirnir gengu á lagið og komust yfir um miðjan þriðja leikhluta þegar þeir settu niður þrist og breyttu stöðunni í 54:55. ÍR-ingar litu ekki til baka eftir að hafa komist yfir og Keflavík átti engin svör við þeirra leik.
Keflvíkingar virkuðu illa gáttaðir og ráðalausir í seinni hálfleik gegn sprækum Breiðhyltingum sem stöðvuðu sóknarleik heimamanna en Keflavík skoraði aðeins 28 stig í seinni hálfleik, sem er aðeins einu stigi meira en í fyrsta leikhluta. Það stóð ekki steinn yfir steini í leik Keflavíkur sem er enn á toppi deildarinnar með tuttugu stig eftir fjórtán leiki (10/4). Njarðvíkingar eru í öðru sæti með átján stig eftir þrettán leiki (9/4), þá koma Valur (7/4), Grindavík (7/5), Stjarnan (7/6) og Tindastóll (7/5) öll með fjórtán stig.
Frammistaða Keflvíkinga: Jaka Brodnik 20/4 fráköst, Dominykas Milka 16/8 fráköst, Hörður Axel Vilhjálmsson 14/7 fráköst/8 stoðsendingar, Halldór Garðar Hermannsson 9, Darius Tarvydas 7, Calvin Burks Jr. 7, Ágúst Orrason 2, Magnús Pétursson 2, Arnór Sveinsson 0, Þröstur Leó Jóhannsson 0, Frosti Sigurðsson 0, Nikola Orelj 0.