Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Teitur ósáttur við uppsögnina
Laugardagur 26. apríl 2008 kl. 21:38

Teitur ósáttur við uppsögnina

Teitur Örlygsson hafði fullan hug á því að vera áfram með Njarðvíkurliðið á næstu leiktíð en sagði í samtali við Víkurfréttir að hann hefði verið rekinn úr starfi þjálfara og hafi enn ekki fengið almennilegar skýringar á uppsögninni. Víkurfréttir náðu á Teit fyrir skömmu sem sagði að svo virtist sem fullt af litlum mafíum væru innan félagsins sem hefðu of mikil áhrif. Hann hefði verið varaður við þessu starfsumhverfi áður en hann tók að sér þjálfarastöðuna hjá Njarðvík.
 
,,Þetta er mitt félag en það virðist sem fullt af litlum mafíum séu að hafa áhrif á þetta allt saman og það var búið að vara mig við þessu en núna er þetta allt að koma í ljós. Hér virðast vera fullt af kóngum sem vilja stjórna,” sagði Teitur en fór ekkert út í þá sálma að tíunda hvaða aðila hann ætti við.
 
,,Eftir því sem ég kemst næst voru forráðamenn félagsins eitthvað smeykir við að leikmenn væru ekki búnir að skrifa undir nýja samninga og því væri ákveðið að semja ekki aftur við mig,” sagði Teitur sem vildi meina að þessar starfsaðferðir væru ekkert annað en brottrekstur úr starfi.
 
,,Það er greinilega eitthvað að hjá Njarðvík. Félagið leysir ekki vandamálin sín með þessu. Mér finnst ég ekki hafa fengið tækifæri þar sem það var nánast ekkert undirbúningstímabil hjá okkur og ég nýliði sem þjálfari. Á næstu leiktíð hefði ég komið inn með eitthvað öðruvísi og var byrjaður að fara í gegnum þau mál með stjórninni,” sagði Teitur og það var ljóst á máli hans að hann var gríðarlega ósáttur við ákvörðun stjórnar.
 
,,Það þurfa allir hjá félaginu að líta í eigin barm, stjórn, leikmenn og allir aðrir sem koma að félaginu. Þegar það er hiti og öldugangur þá á fólk að slappa af, lægja öldurnar og leyfa mönnum að starfa eðlilega. Það vantar alvöru leiðtoga í Njarðvík til að þjappa fólkinu saman,” sagði Teitur sem skilaði Njarðvíkingum í 4. sæti deildarkeppninnar og undanúrslit Lýsingarbikarsins. Njarðvíkingar duttu svo út gegn bikarmeisturum Snæfells í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.
 
Ásgeir Snær Guðbjartsson, varaformaður Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur, sagði að gluggi hefði verið í samningi félagsins við Teit fram að 1. maí þar sem báðir aðilar gátu gengið út úr samningnum. Félagið hafi ákveðið að nýta það ákvæði. ,,Nú er búið að gera smá lista og við erum byrjuð að kanna nýja þjálfara og hverjir komi til greina,” sagði Ásgeir en vildi að öðrum kosti ekki tjá sig um málið.
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024