Sverrir Þór kominn heim og aðstoðar Hjalta
Keflvíkingurinn Sverrir Þór Sverrisson hefur snúið heim og mun verða Hjalta Vilhjálmssyni til aðstoðar með karlalið Keflavíkur í vetur. Sverri er óþarfi að kynna enda hefur hann gert garðinn frægan sem leikmaður og þjálfari og unnið allt sem hægt er að vinna í íslenskum körfubolta. Frá þessu er greint á vef Keflavíkur.
Mikil ánægja ríkir innan herbúða Keflavíkur með að Sverrir hafi verið til í slaginn. Magnús Sverrir Þorsteinsson, formaður Keflavíkur, kvaðst ótrúlega ánægður með að fá Sverri.
„Sverrir hefur marg sannað sig sem þjálfari og klárt mál að hann mun færa liðinu og klúbbnum í heild stemmningu og gleði, eitthvað sem honum fylgir. Þá mun reynsla hans, sigurvilji og elja koma til með að hjálpa leikmönnum og öllum í kringum klúbbinn. Við höfum rosalega mikla trú á því að hann og Hjalti komi til með að mynda gott þjálfarapar og styðja hvorn annan til góðra verka.“
Sjálfur segist Sverrir vera klár í slaginn.
„Mér líst mjög vel á það sem er í gangi í Keflavík, mikill kraftur í nýrri stjórn að byggja ofan á síðustu tímabil og gera enn betur. Ég er þar að leiðandi mjög spenntur að koma inn sem aðstoðarmaður Hjalta og hef fulla trú á að við munum verða öflugt teymi.”