Suðurnesjamenn á toppnum í tölfræði körfuboltans
Leikmenn Suðurnesjaliðanna eru áberandi á listum sem fréttamiðillinn sport.is hefur tekið saman úr tölfræði fyrstu sjö umferða Intersport-deildarinnar. Fremstur meðal jafningja er Brandon Woudstra sem hefur byrjað feril sinn a Íslandi með miklum ágætum og er meðal efstu manna í flestum tölfræðiþáttum.
Hann er til dæmis næst stigahæstur í deildinni með 29 stig. á þeim lista má einnig finna Keflvíkinginn Derrick Allen sem er í 7. sæti og Grindvíkinginn Darrel Lewis sem er í 10. sæti. Stigahæstur Íslendinga í deildinni er Páll Axel Vilbergsson leikmaður Grindavíkur.
Á stoðsendingalistanum er Helgi Jónas Guðfinnsson efstur Suðurnesjamanna í 3. sæti en hefur einungis leikið einn leik. Honum næstur kemur fyrrnefndur Brandon Woudstra í 6. sæti með 6 stoðsendingar í leik, þá Darrel Lewis í 8. sæti og Brenton Birmingham frá Njarðvík í 9. sæti.
Gamla Grindvíkurkempan Guðmundur Bragason lætur engan bilbug á sér finna og er efstur Suðurnesjamanna í fráköstum með rúmlega 11 að meðaltali í leik. Liðsfélagi hans, Daniel Trammel, situr í 8. sæti og Allen frá Keflavík og Friðrik Stefánsson, Njarðvík eru jafnir í 10. sæti með rúmlega 10 stykki í leik.
Téður Woudstra er enn í fremstu röð þegar litið er á bestu vítaskytturnar. Hann er í öðru sæti með 91.1% nýtingu og hefur bara klikkað á 4 skotum í vetur. Keflvíkingurinn Magnús Þór situr í 8. sæti þess lista.
Brandon er ekki bara framarlega í sóknarþáttum, heldur er hann líka í öðru sæti listans yfir flesta stolna bolta með 3,3 í leik. Félagi hans, Brenton, er í 4. sæti þess lista.
Turnarnir tveir í Njarðvík, Egill Jónasson og Friðrik Stefánsson voru í 2. og 3. sæti yfir efstu menn í vörðum skotum með hátt í þrjú í leik hvor og Trammel frá Grindavík er í 5 sæti. Athygli vekur að þrátt fyrir að Egill sé í öðru sæti listans spilar hann um helmingi færri mínútur í hverjum leik en hinir topparnir.
Næst víkur sögu að tölfræðilið sem Woudstra er sennilega ekki stoltur af að leiða. Hann tapar að jafnaði 5 boltum í hverjum leik og er þar fremstur á meðal jafningja.
Páll Axel spilar fleiri mínútur að jafnaði í leik en nokkur Suðurnesjamaður og fær um tveggja mínútna hvíld í hverjum leik. Woudstra og Darrel Lewis koma rétt á hæla hans í 5. og 7. sæti.
Engin furða er að Suðurnesjamenn séu áberandi á toppum tölfræðilistanna þar sem Þau eru í hópi allra bestu liða landsins. Grindavík er efst í deildinni, Njarðvík í öðru sæti og Keflvíkingar geta komist í það þriðja ef þeir sigra í næsta leik sínum.
Hér má finna tölfræðisamantektina í heild sinni