Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Stál í stál
Miðvikudagur 29. mars 2006 kl. 17:02

Stál í stál

KR – ingar snéru bökum saman eftir háðulega útreið í Ljónagryfjunni og mættu hörðu með hörðu er þeir lögðu Njarðvíkinga að velli 77 – 61 í DHL – höllinni í gær. Staðan er því 1 – 1 í einvígi liðanna sem mætast að nýju á föstudagskvöld í Ljónagryfjunni.

Leikurinn í gær fór stirðbusalega af stað en Steinar Kaldal gerði fyrstu fjögur stigin fyrir KR og kom þeim á sporið. Eftir um fimm mínútna leik var staðan 6 – 2 KR í vil og fátt sem gladdi augað. Loks lifnaði yfir leiknum þegar Brynjar Björnsson kom inn á í liði KR og setti niður tvær þriggja stiga körfur með skömmu millibili og kveikti í KR. Staðan að loknum 1. leikhluta var 17 – 15 í vil.

Í öðrum leikhluta óx KR ásmegin og jók muninn úr tveimur stigum í 11 þegar flautað var til leikhlés og vörn Njarðvíkinga fjarri sínu besta. Staðan í hálfleik var 43 – 32 fyrir KR og Halldór Karlsson kominn með fjórar villur í liði Njarðvíkur.

Njarðvíkingar náðu að brúa bilið í 3. leikhluta í 49 – 41 en þá hrundi leikur þeirra og heimamenn gengu á lagið og höfðu yfir 64 – 44 fyrir 4. leikhluta og gerði Ljubodrag Bogavac flautukörfu og fagnaði ógurlega. Mönnum hitnaði verulega í hamsi og voru tæknivítin teljandi á fingrum beggja handa, þeir Guðmundur Jónsson, Egill Jónasson og Halldór Karlsson þurftu allir frá að víkja með 5 villur.

Munurinn reyndist Njarðvíkingum of mikill og fór KR með 16 stiga sigur af hólmi 77 – 61. Ljubodrag Bogavac lék vafalaust sinn besta leik fyrir KR í vetur með 15 stig og 14 fráköst og bætti þar með fyrir slaka frammistöðu sína í fyrsta leik liðanna. Jeb Ivey var sá eini sem komst nálægt því að leika af eðlilegri getu í Njarðvíkurliðinu, hann gerði 24 stig í leiknum og Friðrik Stefánsson gerði 10 og tók 13 fráköst.

Þó leikurinn sjálfur hafi ekki verið mikið augnakonfekt þá var gaman að sjá landsliðsmiðherjana Fannar Ólafsson og Friðrik Stefánsson kljást í teignum. Þar mætast stálin stinn.

Næsti leikur liðanna fer fram á föstudag í Ljónagryfjunni kl. 19:15.

Tölfræði leiksins

VF – myndir/ JBÓ
[email protected]

 

 

 

 

 


 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024