Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sögulegur sigur Grindvíkinga
Mánudagur 15. maí 2006 kl. 17:00

Sögulegur sigur Grindvíkinga

Grindvíkingar unnu góðan sigur á stórliði ÍA, 3-2, í fyrsta leik sumarsins í Landsbankadeild karla í gær. Metáhorfendafjöldi var á  leiknum, rúmlega 1300 manns, en þetta var í fyrsta sinn frá því að Grindvíkingar komust upp í efstu deild sem þeir vinna fyrsta leik.

Sigurður Jónsson, nýr þjálfari liðsins, virðist vera að gera góða hluti og annar nýliði, framherjinn Jóhann Þórhallsson, sló í gegn í sínum fyrsta leik með liðinu og gerði tvö mörk.

Leikurinn hófst heldur rólega en Grindvíkingar voru meira með boltann í byrjun án þess þó að skapa sér afgerandi marktækifæri.

Skagamenn komu meira inn í leikinn eftir því sem leið á hálfleikinn og áttu fyrsta færið þegar Bjarni Guðjónsson skaut framhjá á 16. mínútu. Skömmu síðar björguðu Grindvíkingar í horn eftir að Arnar Gunnlaugsson slapp inn fyrir Sinisa Kekic og gaf inn á Jón Vilhelm Ákason sem skaut í varnarmann og útaf.

Eftir sífellt harðari sókn komust gestirnir yfir og var það Guðjón Heiðar Sveinsson sem sem átti góða fyrirgjöf frá vinstri á Arnar Gunnlaugsson sem skallaði boltann í fjærhornið, framhjá Helga Má Helgasyni í marki Grindvíkinga. Varnarmenn hefðu getað afstýrt þessu marki með betri dekkun, en skallinn var engu að síður góður.

Skagamenn tóku stjórnina á vellinum eftir þetta og var Bjarni Guðjónsson sérlega góður á miðjunni og stjórnaði spili sinna manna vel.

þegar dró næri hálfleik tóku heimamenn sig þó saman í andlitinu og beittu löngum sendingum á Mounir Ahandour sem olli oft miklum usla í vörn ÍA með hraða sínum. Þá var Óskar Örn Hauksson ógnandi á hægri kantinum.

Það herbragð bar árangur í uppbótartíma í fyrri hálfleik þegar Ahandour slapp einn innfyrir eftir mishepppnaða sendingu aftur og smellti knettinum af löngu færi framhjá Keflvíkingnum Bjarka Guðmundssyni í marki ÍA. Liðin voru því jöfn í hálfleik.

Jóhann Þórhallsson átti fyrsta færi seinni hálfleiks þegar hann komst einn innfyrir. Hann lék á Bjarka en varnarmaður ÍA varði skot hans á línu.

Á 53. mínútu dró til tíðinda þegar Ahandour slapp innfyrir og féll innan teigs eftir tæklingu Helga Péturs Magnússonar. Dómarinn benti á punktinn þrátt fyrir hávær mótmæli Skagamanna, enda var spurning um hvort Helgi hefði náð til knattarins áður en hann fór í Ahandour.

Ef Grindvíkingar fengu vítið að gjöf jafnaðist það út í á 67. mínútu þegar Bjarki tók Óskar Örn niður í vítateignum. Rakin vítaspyrna en Ólafur Ragnarsson, dómari lét málið niður falla.

Eftir það pressuðu Skagamenn fast að marki Grindvíkinga og uppskáru eftir því þegar varamaðurinn Ellert Jón Björnsson skallaði knöttinn í markið. Hann var óvaldaður á teig eftir fyrirgjöf frá vinstri og kláraði færið af öryggi.

Jafnteflið lá í loftinu þegar Jóhann slapp enn eina ferðina inn fyrir vörn ÍA. Eysteinn Hauksson hreinsaði langt fram á völlinn eftir hornspyrnu og boltinn sveif yfir höfuð varnarmanns og beint á Jóhann.

Honum brást ekki bogalistin og skoraði af öryggi framhjá Bjarka.

Eftir það lögðu Skagamenn allt kapp á að jafna, en það var til lítils og Grindvíkingar fögnuðu sigri.

Jóhann sagði í samtali við Víkurfréttir að þó mörkin væru sæt skiptu stigin þrjú mestu máli. „Þetta var erfiður leikur og mikil barátta, en við lékum vel og börðumst allan tímann og ég vona að það muni skila sér í sumar.“ Aðspurður að því hvort þetta væri vísbending um að hann ætli að skapa sér sess sem einn skæðasti framherji landsins sagði hann að hann teldi sig þegar hafa sýnt hvað í honum  býr. „Ég hef að vísu átt erfið tvö ár, en nú kem ég sterkur inn!“

Sigurður þjálfari var að vonum sáttur með stigin þrjú. Hann sagði að þrátt fyrir hrakspár ýmissa fjölmiðla fyrir sumarið hafi sigurinn ekki komið Grindvíkingum á óvart. „Við voru staðráðnir í að vinna þennan leik og ef við fáum upp baráttu og samstöðu  eins og sást í lokaleiknum í fyrra í hverjum leik mun okkur ganga vel.
Við sýndum í þessum leik að við höfum vilja og kartakter til að klára leiki. Við vorum staðráðnir í að sætta okkur ekki við jafntefli og náðum okkar markmiði.“

Sigurður segist ánægður með margt í leik sinna manna en Skagamenn hafi þó fengið of ódýr mörk. „Ég er ekki nógu ánægður með varnarleikinn í mörkunum þeirra, en þetta eru hlutir sem má laga. Þetta var ákveðið einbeitingarleysi sem á að vera hægt að komast fyrir.“

Þegar Sigurður er spurður að því hvaða þætti megi helst styrkja í liðinu segir hann að mest ríði á að bæta sig á öllum sviðum. „Við megum alls ekki slá slöku við. Það verður ekki liðið. Við ætlum að bæta í og styrkja hver annan og ef við fáum svona stuðning áfram mun það allt vinna saman.“

VF-myndir/Þorgils

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024