Sjónvarp: Svífur um á elstu braut landsins
Aron Ómars æfir fyrir erfiðustu keppni heims
Eftir sjö ára fjarveru frá motocross hefur Suðurnesjamaðurinn Aron Ómarsson ákveðið að draga hjólið úr bílskúrnum og keppa á einu erfiðasta móti heims, RedBull Romaniacs sem fram fer í Rúmeníu í sumar. Aron hafði mikla yfirburði í íþróttinni þegar hann ákvað að hætta ungur að aldri. Nú er hann kominn í gírinn á ný og æfir af kappi, svona eins og aðstæður leyfa á elstu motocross-braut landsins ofan við Sólbrekku.
Aron hóf að hjóla 12 ára gamall. Þá hafði hann lítinn áhuga á því að fara í bústað með foreldrum sínum hverja helgi og því brugðu foreldrarnir á það ráð að reyna að freista stráksins. Þau hugðust kaupa handa honum vespu og lokka hann þannig með sér í sveitina. Vespan reyndist óvart vera krossari og Aron féll strax fyrir hjólinu. „Það leið ekki á löngu þar til ég heimtaði að fá að taka hjólið heim og þá var ekki aftur snúið, hjólið fór aldrei aftur upp í sumarbústað,“ segir Aron sem er nú 15 árum síðar margfaldur Íslandsmeistari sem hefur keppt víðs vegar um heiminn.
Að ofan má sjá innslag Sjónvarps Víkurfrétta þar sem Aron var heimsóttur á æfingu.