Sjónvarp: Ber út boðskap pílukasts
Körfuboltakempa orðinn landsliðsþjálfari í pílukasti
Pétur Rúðrik Guðmundsson er Suðurnesjamönnum helst kunnur sem leikmaður og þjálfari í körfubolta þar sem hann átti farsælan feril með Keflavík og Grindavík. Hann hefur nú hafið nýjan feril í annarri íþrótt sem hann hyggst koma á kortið. Pétur er nú landsliðsmaður og þjálfari undir 18 ára landsliðs Íslands í pílukasti sem hann segir ört vaxandi íþrótt.
Pétur sjálfur hefur verið að kasta pílum í um 20 ár öðru hvoru samhliða körfuboltanum. Þegar hann var upp á sitt besta í körfunni keppti hann líka í pílu án þess þó að leggja mikla áherslu á þá íþrótt. „Ég var þannig spilari að ég gat unnið þá sem voru fyrir neðan þá bestu og var hættulegur þeim bestu öðru hvoru,“ segir Pétur sem hafði þó verið í góðri pásu frá pílunni þar til að Alex Máni sonur hans fór að sýna íþróttinni áhuga fyrir tveimur árum. Strákurinn hafði þá verið að kasta hjá afa sínum og vildi setja upp píluspjald á heimilinu.
„Því var sett upp spjald og við höfum verið að kasta eins og vitleysingar síðan og mætt í öll mót sem við komust í,“ segir Pétur. Alex er að spila við meistaraflokksmenn og er þar yfir pari og Pétur er sjálfur kominn í landsliðið eins og áður segir. Hann er ennþá örlítið betri en strákurinn en þó er bilið stöðugt að minnka. Pétur sóttist svo eftir því að þjálfa yngri iðkendur en engin unglingalandslið hafa verið starfrækt í pílu þar til nú. „Ég á stráknum það að þakka að ég er kominn svona djúpt í þetta núna.“
Pétur var sigursæll í körfuboltanum og annálaður keppnismaður. Það sama gildir í pílunni og hann hugsar með sér að hann sé á vítalínunni og leikurinn sé undir í hvert einasta skipti sem hann kastar pílu. Körfuboltinn kemur að góðum notum í pílu að sögn Péturs enda er kasthreyfingin þar mjög svipuð skothreyfingunni í körfuboltanum. „Ég grínaðist alltaf með það að menn eru bestir á milli fertugs og sextugs í pílunni og er kannski að fylgja því ómeðvitað.“
Pétur segir margt heillandi við píluna. „Ég er svolítill keppnismaður en það tók mig smá tíma að tengja keppnisskapið við pílu. Það er að heilla mig að ég er ennþá að keppa og er að stefna að markmiðum. Svo er ótrúlega gaman að stúdera píluna og pæla í hvað menn eru að gera.“ Flestir hafa prufað pílu og haft gaman af en kannski ekki stefnt að því að ná árangri í íþróttinni. En hvað þarf til? „Eins og í öllu öðru þá þarftu að æfa þig og fara á hverjum degi að kasta. Ég horfi á þetta eins og körfuna og reyni að æfa á hverjum degi. Ef maður ætlar að verða góður þá er um að gera að mæta á þau mót sem eru í boði.“
Gaman af stærðfræði án þess að fatta það
Pílukast er nú í boði sem valfag í grunnskóla Grindavíkur. Pétur segir píluna vera gott tól fyrir nemendur að æfa einbeitinguna eins sem íþróttin snýst að miklu leyti um stærðfræði. „Þú ert að hafa gaman af stærðfræði án þess að fatta það þar sem þú ert stöðugt að reikna.“
Pétur stefnir á að breiða út boðskap pílunnar í sveitafélögum á Suðurnesjum og í skólum á svæðinu. „Píla er í grunninn pöbba- og bílskúrssport og er ennþá þar. En á sama tíma er vöxturinn í pílunni orðinn gríðarlegur. Það er að verða til unglingastarf þar sem unglingar alast upp við að þetta sé alvöru sport þar sem til eru stórar og miklar atvinnumannadeildir.“ Á Íslandi mæta svo í hverri viku um 100 manns að keppa í sérstakri deild og í Reykjavík eru alltaf 2 til 3 mót í viku, þannig að senan hér er nokkuð öflug. Pétur á sér háleit markmið og sér fyrir sér að píla muni verða í boði á ólympíuleikum framtíðarinnar. „Minn draumur er sá að ég og drengurinn munum spila fyrir Ísland á ólympíuleikunum en ég sé sportið komast þar inn eftir kannski átta ár. Fyrir mér er það mjög heillandi hvort sem það verður að veruleika eða ekki þá er ég búinn að setja mér það sem markmið.“
Pétur er ennþá að þjálfa yngri flokka í körfuboltanum í Grindavík en hann segir íþróttirnar gagnast hvorri annarri. „Hugurinn er mikilvægur í öllum íþróttagreinum. Minn styrkleiki í körfunni var ekki tæknilegir hæfileikar en ég var mjög meðvitaður um hvað þurfti að gera hugarfarslega til þess að ná þeim árangri miðað við þá hæfileika sem ég hafði. Það sama gildir í pílunni,“ segir Pétur að lokum.
Pétur hefur m.a. þjálfað hjá Grindavík, Keflavík og Haukum í körfunni.