Sindri Kristinn á förum frá Keflavík
Sindri Kristinn Ólafsson og knattspyrnudeild Keflavíkur munu ekki endurnýja samninga sína og því kveður Sindri Keflavík í bili. Þetta kemur fram á Facebook-síðu deildarinnar en Sindri hefur verið orðaður við nokkur efstudeildarlið að undanförnu.
Sindri hefur verið aðalmarkvörður Keflavíkur síðustu sex ár og hefur leikið 162 leiki í deildar- og bikarkeppni, hann er orðinn næstleikjahæsti markmaður félagsins á eftir Ómari Jóhannssyni. Þá er hann nýkominn úr verkefni með A landsliði Íslands en Sindri var valinn í hóp fyrir æfingaleiki Íslands gegn Sádi-Arabíu og Suður-Kóreu.
Sindri er uppalinn Keflvíkingur og hefur aldrei leikið með öðru liði heldur en Keflavík. Hann lék sinn fyrsta leik með meistaraflokki árið 2014 gegn Fram á Laugardalsvelli í Pepsi-deildinni.
Í færslunni þakkar knattspyrnudeild Keflavíkur Sindra fyrir hans framlag til félagsins og leggur áherslu á að hann sé alltaf velkominn aftur til Keflavíkur.
„Við óskum Sindra einnig góðs gengis í því sem hann tekur sér fyrir hendur. Sindri hefur verið holdgervingur Keflavíkur og fyrir það erum við þakklát.
Það þurfti aldrei að spyrja Sindra um að gera eitthvað fyrir félagið hvort sem það var tengt meistaraflokki karla, kvenna, yngri flokkum eða umgjörð félagsins, alltaf fyrsti maður á staðinn og seinastur að yfirgefa hann. Sannur Keflvíkingur.“