Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Scaniameistarar snúa heim
Mánudagur 12. apríl 2004 kl. 17:19

Scaniameistarar snúa heim

Scania meistararnir frá Njarðvík voru hylltir ákaft er þeir komu aftur heim frá Svíþjóð með sigurlaunin í farteskinu.
Drengirnir, sem eru fæddir 1989, unnu alla sína leiki og fögnuðu sigri annað árið í röð á Scania Cup sem er eins konar óopinber Norðurlandakeppni yngri flokka. Ragnar Ólafsson var valinn besti maður mótsins, en hann skoraði 23 stig að meðaltali á mótinu.

Drengirnir eru ekki óvanir slíkri velgengni því þeir hafa unnið alla titla sem þeir hafa keppt um frá upphafi. Þeir tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í 9. flokki á dögunum og hafa ekki tapað leik frá því í nóvember 2001 og var úrslitaleikurinn í gær 60 sigur þeirra í röð!

Einar Árni Jóhannsson, þjálfari drengjanna, sagði árangurinn vera góðan og þeir hefðu í raun ekki lent í teljandi vandræðum í mótinu. „Þetta var sannfærandi sigur. Það var kannski úrslitaleikurinn sem var erfiður, en við áttum frábæran kafla í þriðja leikhluta sem kláraði það dæmi.“ Einar Árni sagði sterka liðsheild og góða breidd hafa verið þeirra styrkleikur á mótinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024