Sár ósigur í Sláturhúsinu
Haukar gerðu góða ferð til Keflavíkur í kvöld þegar þær lögðu heimastúlkur í Iceland Express Deild kvenna, 60-75.
Í leiknum í kvöld virtust Keflvíkingar vera á hælunum og þær hrukku ekki í gang fyrr en eftir að ljóst var hvernig færi og lykilmenn voru að bregðast þegar á reyndi.
Haukar byrjuðu betur og leiddu, 17-20 eftir fyrsta leikhluta, en þar hafði Reshea Bristol fengið tvæ villur og eina tæknivillu í ofanálag og var því á bekknum stóran hluta úr leiknum.
Staðan í hálfleik var 29-47 og gekk hvorki né rak hjá meisturunum. Í seinni hálfleik var gegnið svipað þar sem ekkert virtist ganga upp í sókn eða vörn, fyrr en undir lokin þegarliðið sýndi loks glætu af því sem liðið á til í sér. Það dugði því þó ekki til eins og fram hefur komið og sitja Keflvíkingar nú í 3. sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir toppliðunum.
Reshea Bristol var stigahæst Keflvíkinga, þrátt fyrir bekkjarsetuna, en hefur oft átt betri leiki. Hún var með 14 stig og 10 fráköst. Rannveig Randversdóttir kom henni næst með 11 stig.
Hjá Haukum var Ke-Ke Tardy stigahæst með 22 stig og 17 fráköst og Helena Sverrisdóttir bætti við 17 stigum og tók 16 fráköst.
Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflvíkinga, var ekki ánægður með frammistöðu sinna manna í kvöld.
"Við hleyptum þeim of langt framúr og spiluðum einfaldlega illa og þurfum að fara yfir okkar leik fyrir bikarleikinn gegn Haukum á sunnudaginn."
VF-myndir/Þorgils