Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sannfærandi sigur Njarðvíkinga í toppslag
Aliyah Collier var sem oftar áberandi í liði Njarðvíkinga en hún var með 30 stig í gær og 46 framlagspunkta. Myndir úr safni Víkurfrétta
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 14. febrúar 2022 kl. 12:12

Sannfærandi sigur Njarðvíkinga í toppslag

Njarðvíkingar tóku á móti liði Fjölnis í Ljónagryfjunni í gærkvöld en fyrir leikinn voru liðin jöfn að stigum í öðru og þriðja sæti Subway-deildar kvenna í körfuknattleik. Njarðvíkingar hafa verið í hálfgerðri niðursveiflu í síðustu leikjum en rifu sig heldur betur í gang í gær og gersamlega gengu frá Fjölnisstúlkum sem sáu aldrei til sólar í leiknum. 27 stiga yfirburðasigur Njarðvíkinga (82:55) var fullkomlega sanngjarn.


Njarðvík - Fjölnir 82:55

(25:9, 16:14, 25:20, 16:12)

Það var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi lenda, Njarðvíkingar mættu gríðarlega ákveðnar og vel stemmdar til leiks og náðu öruggri forystu í fyrsta leikhluta (25:9). Sóknarleik Fjölnis var haldið niðri og þær gerðu ekki nema 23 stig í fyrri hálfleik, staðan 41:23 eftir annan leikhluta.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Gestirnir reyndu hvað þær gátu að komast til baka í þriðja leikhluta en ljónynjurnar í Njarðvík héldu áfram að breikka bilið milli liðanna og höfðu 23 stiga forskot fyrir lokaleikhlutann (66:43). Það var óvinnandi vegur fyrir Fjölni að fá eitthvað út úr þessum leik og yfirburðir Njarðvíkinga kom þeim upp að hlið Vals á toppnum, bæði lið með 22 stig en Fjölnir er tveimur stigum á eftir Njarðvík og Val en hefur leikið einu færri leik og getur jafnað þau að stigum.


Víkurfréttir heyrðu í sigurreifum þjálfara Njarðvíkinga, Rúnari Inga Erlingssyni, eftir leikinn í gær og hann var að vonum ánægður með frammistöðuna.

„Ég er virkilega ánægður með frammistöðuna og hugarfarið í kvöld hjá liðinu. Það er nú einu sinni þannig að það skiptir engu máli hversu mikla hæfileika þú hefur ef þú setur ekki hjartað í verkefnið en við gerðum það svo sannarlega í kvöld.

Við höfum ekki verið að spila vel í síðustu leikjum, aðallega vantaði bara gleði og hjarta í leikina okkar og þetta er búið að vera þungt en í dag komum við alveg brjálaðar til leiks, með flottan stuðning úr stúkunni og sýndum úr hverju við erum gerðar gegn vel mönnuðu Fjölnisliði.

Fyrst og fremst er ég rosalega glaður með þetta svar frá hópnum mínum – að komast yfir þetta mótlæti sem hefur verið, sýna það í verki á parketinu og ná í tvö RISAstór stig í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni.“

Tengdar fréttir