Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Ray hættir með kvennalið Grindavíkur
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 4. nóvember 2020 kl. 15:38

Ray hættir með kvennalið Grindavíkur

Ray Anthony Jónsson hefur látið af störfum sem þjálfari meistaraflokks kvenna eftir að liðið stóð uppi sem deildarmeistari í 2. deild kvenna í sumar. Ray hættir að eigin ósk eftir að hafa stýrt liðinu í þrjú ár og hefur knattspyrnudeild Grindavíkur hafið leit að eftirmanni hans.
Á Facebook-síðu knattspyrnudeilda UMFGsegir Petra Rós Ólafsdóttir, formaður kvennaráðs knattspyrnudeildar Grindavíkur: „Árangur liðsins í sumar var mjög góður og markmið sumarsins náðist – að komast upp í Lengjudeildina á ný. Jákvæð uppbygging hefur verið hjá liðinu í sumar og margir ungir leikmenn sem hafa bætt sig mikið undir stjórn Ray í sumar. Við viljum þakka Ray kærlega fyrir sitt framlag til kvennaknattspyrnunnar undanfarin þrjú ár og óskum honum velfarnaðar í þeim verkefnum sem hann tekur sér fyrir hendur.“
Ray Anthony er einn leikjahæsti leikmaður í sögu Grindavíkur í knattspyrnu en á ferli sínum lék hann 266 keppnisleiki og skoraði í þeim fimmtán mörk. Hann á einnig landsleiki með U21 landsliði Íslands og nokkra landsleiki með landsliði Filipseyja.

Haukur hættir sem aðstoðarþjálfari Keflvíkinga

Þá hefur knattspyrnudeild Keflavíkur og Haukur Benediktsson komist að samkomulagi um starfslok Hauks sem aðstoðarþjálfara meistaraflokks kvenna hjá félaginu. Haukur á að baki farsælan feril með Keflavík en hann tók við starfi aðstoðarþjálfara meistaraflokks sumarið 2016 en áður hafði hann þjálfað yngri flokka hjá Keflavík.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á Facebook-síðu knattspyrnudeildar Keflavíkur er Hauki þakkað framlag sitt til uppbyggingar kvennaknattspyrnunnar í Keflavík og þátt hans í að koma liðinu aftur í Pepsi Max-deildina á næsta ári.