Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Pétur Óskar og Hans unnu Vilhjálmsbikarinn
Fimmtudagur 14. ágúst 2008 kl. 16:40

Pétur Óskar og Hans unnu Vilhjálmsbikarinn

Pétur Óskar Sigurðsson og Hans V. Henttinen úr Golfklúbbi Reykjavíkur sigruðu í Minningarmótinu um Vilhjálm Vilhjálmsson á Hólmsvelli í Leiru og hömpuðu hinum glæsilega Vilhjálmsbikar sem nú var keppt  um í áttunda sinn. Þeir Pétur og Hans léku á 64 höggum nettó en leikið er eftir Greensome fyrirkomulagi, en þá slá báðir liðsmenn upphafshögg og velja síðan annað þeirra og slá annað hvert högg eftir það. Þeir fengu gjafabréf frá Icelandair að upphæð 35 þús. kr. hvor.



Róbert Mar Jóhannsson og Gunnar Logason úr GS voru aðeins höggi á eftir sigurvegurunum í 2. sæti og hlutu að launum helgarleigu á húsbíl frá Bílaleigunni Geysi, en þriðju urðu þeir Ingiþór Arnar Sigurgíslason og Valgeir Sigurðsson úr GS á 66 höggum. Þeir fengu Sun Mountain 3 hjóla kerru frá Nevada Bob. Á sama höggafjölda og 3G lykli frá Vodafone ríkari voru þeir Guðni Hafsteinsson og Þorsteinn Magnússon, báðir brottfluttir Suðurnesjamenn.

Keppnin var mjög hörð og góð skor að venju en í 5.-6. sæti voru þeir Þórarinn G. Ólason og sonur hans, Gunnar, og síðan þeir Halldór G. Halldórsson og Einar Snorrason, á 67 höggum, bæði lið.

Að venju voru mjög vegleg verðlaun í mótinu en þau glæsilegustu voru fyrir holu í höggi á 16. braut en það var glæsilegt átján hundruð kúbika Suzuki mótorhjól frá Vátryggingafélagi Íslands. Reynir Baldursson var nálægt því að hjóla burtu á fáknum en kúla hans endaði 61,5 sm. frá holunni. Halldór Halldórsson úr Keflavík, sem útskrifaðist með hæstu einkunn í lögfræði í vor frá HR, vann stórt og mikið gasgrill frá Kaskó og Samkaup. Fjöldi annarra aukaverðlauna voru í boði frá Símanum Landsbankanum, Icejet og Haddí listakonu. Dregið var úr skorkortum og keppendur fengu Langbest pítsur að vild í mótslok og ljúffengar tertur frá Nýja Bakaríinu.

Mótsgjöld, um hálf milljón króna, rann öll til golfvallargerðar hjá Golfklúbbi Suðurnesja en Vilhjálmur heitinn var vallarstarfsmaður í Leirunni þegar hann lést og kylfingur góður. Metþátttaka var í mótinu en alls mættu 144 kylfingar til leiks, 72 lið sem léku golf á góðum Hólmsvelli í frábæru veðri að venju.

Gylfi Kristinsson var heiðraður af aðstandendum Vilhjálmsmótsins, en hann lætur af störfum sem framkvæmdstjóri GS í haust.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Hægt er að sjá myndaséríu frá mótinu á ljósmyndavefnum.

VF-MYNDIR/pket: Á efstu myndinni eru sigurvegarar mótsins, Pétur Óskar og Hans.




Ef einhver keppandi hefði náð því að fara holu í höggi hefði sá hin sami ekið heim á 1800 kúbika Suzuki mótorhjóli.



Margeir, Garðar Vilhjálmssynir afhentu verðlaunin en Halldór Karlsson vann sér inn glæsilegt grill.



Gylfi Kristinsson, framkvæmdastjóri GS, fékk heiðursverðlaun en hér er hann með Margeiri, Garðari og Svani Vilhjálmssynum, Kötlu Rún og Degi.