Óvitað með meiðsli Guðmundar
Fyrirliði knattspyrnuliðs Keflavíkur, Guðmundur Steinarsson, þurfti að yfirgefa leikvöllinn vegna meiðsla síðastliðinn mánudag þegar Keflvíkingar tóku á móti Eyjamönnum. Leiknum lauk 2-2 en Guðmundur yfirgaf leikvöllinn á 62. mínútu vegna bólgu sem hann tók eftir að farin var að myndast í öðru hnénu.
„Það er ekki enn komið í ljós hvað það var nákvæmlega sem kom fyrir en það verður látið reyna á löppina á æfingu á morgun. Þetta gerðist þannig að ég var að fara að taka hornspyrnu og fann þá fyrir þyngslum í öðrum fæti,“ sagði Guðmundur. „Eftir hornspyrnuna tók ég eftir bólgu sem kom fram í hnénu og hún stækkaði stöðugt. Það var sett kæling á þetta og ég fór í myndatöku en þar fannst ekkert athugavert. Það verður bara að koma í ljós hvað verður en ég vona að ég geti verið með í leiknum gegn KR á sunnudag,“ sagði Guðmundur í samtali við Víkurfréttir í dag.
VF-mynd/ Guðmundur í leik gegn Fylki fyrr í sumar