Óvæntur Njarðvíkursigur á Snæfell í Gryfjunni
Njarðvíkingar gerðu sér lítið fyrir og skelltu Snæfell í kvöld með 10 stigum 88:78 þar sem Cameron Echols reyndist Snæfell erfiður ljár í þúfu. 41 stig og 16 fráköst frá honum.
Njarðvíkingar bundu í kvöld enda á sex leikja sigurgöngu Snæfells í Iceland Express deild karla þegar liðin mættust í Ljónagryfjunni. Lokatölur voru 88-78 Njarðvík í vil þar sem Cameron Echols lét rigna yfir Snæfell með 41 stig og 16 fráköst. Með sigrinum eru Njarðvíkingar komnir í 8. sæti deildarinnar með 14 stig en Snæfell hefur 18 stig í 6. sæti.
Snæfell komst í 2-8 eftir mistækar upphafsmínútur heimamanna en Njarðvíkingar voru fljótir að jafna sig og komust í 14-13 þar sem Cameron Echols gerði 10 af fyrstu 14 stigum Njarðvíkinga í leiknum. Við tók sterkt áhlaup Njarðvíkinga, staðan 20-13 en gestirnir minnkuðu muninn í 24-18 og þannig stóðu leikar eftir fyrsta leikhluta.
Quincy Hankins-Cole kann ágætlega við sig utan við þriggja stiga línuna, minnkaði muninn í 26-23 með þrist sem hrundi niður um leið og skotklukkan lét á sér kræla. Aukin harka færðist inn í annan leikhluta en þegar Cameron Echols kom Njarðvík í 30-29 hafði hann gert 20 af þessum 30 stigum liðsins.
Hólmarar voru óhressir með að fá lítið fyrir sinn snúð í Njarðvíkurteignum en mættu með svæðisvörn undir lok fyrri hálfleiks sem grænir kunnu vel að meta. Maciej Baginski og Travis Holmes skelltu þá niður tveimur þristum og strax að því loknu sýndi miðherjinn Echols bakvarðatakta, stal boltanum, brunaði upp völlinn og kláraði með klassískri Evrópu-troðslu, engin tilþrif, bara snyrtimennska. Njarðvík komst þarna í 46-37 en Snæfell átti lokaorðið með vafasamri flautukörfu í lok fyrri hálfleiks.
Ólafur Torfason átti að því er virtist lokaskotið sem fór ekki á hringinn, Sveinn Arnar Davíðsson greip þá boltann og skoraði í loftinu og karfan dæmd gild við litla hrifningu heimamanna. Eitt af þessum atvikum sem myndbandsupptökuvélarnar geta dæmt um endanlega en dómarar leiksins dæmdu körfuna gilda og staðan því 46-39 fyrir Njarðvík í hálfleik.
Cameron Echols var með 24 stig og 14 fráköst hjá Njarðvík í leikhléi og Travis Holmes 15 stig. Hjá Snæfell var Quincy Hankins-Cole með 12 stig og Pálmi Freyr 7 en Jón Ólafur var ekki kominn á blað og komst í raun aldrei í takt við leik kvöldsins.
Gestirnir úr Stykkishólmi voru farnir aftur í maður á mann vörn í upphafi síðari hálfleiks og náðu að minnka muninn í 51-50 þar sem Sveinn Arnar Davíðsson átti góðar rispur fyrir Snæfell, var þeirra besti maður í þriðja leikhluta. Páll Kristinsson fékk sína fjórðu villu í liði Njarðvíkinga eftir klafs við Jón Ólaf Jónsson sem var svona það helsta sem Jón vann sér til afreka í kvöld. Harkan var töluverð í leikhlutanum og þeir Cameron Echols og Ólafur Torfason elduðu saman grátt silfur í nokkrum pústrum. Njarðvíkingar héldu forystunni 65-64 eftir þriðja leikhluta sem Snæfell vann 19-25.
Echols var búinn að skora körfur í öllum regnbogans litum í kvöld þegar hann vippaði sér í þrist og breytti stöðunni í 72-64 með 7-0 byrjun Njarðvíkinga á fjórða leikhluta. Óskar Hjartarson kom Snæfell á blað með þrist eftir rúmlega þriggja mínútna leik í fjórða en heimamenn rifu sig lengra frá og náðu 10 stiga forystu, 78-68.
Njarðvík komst svo í 82-70 eftir stolinn bolta sem lauk með troðslu hjá Travis Holmes en þá fóru Hólmarar loks að bíta almennilega frá sér. Marquis Sheldon Hall fór að ráðast á körfuna og galopna Njarðvíkurvörnina, eitthvað sem maðurinn hafði verið tregur til að gera allan leikinn. Snæfell herti á vörninni og minnkaði muninn í 82-76.
Óli Ragnar Alexandersson stýrði Njarðvíkingum í síðari hálfleik, það gerði þessi ungi leikstjórnandi af mikilli festu og komst vel frá sínu í kvöld, sér í lagi þegar Snæfellingar voru að pressa og reyna að þvinga Njarðvíkinga í vandræði undir lokin. Þá var Óli öruggur í sínum aðgerðum og ætlar bersýnilega að láta Elvar Friðriksson hafa fyrir hlutunum í stöðu leikstjórnanda í Ljónagryfjunni.
Njarðvíkingar hleyptu Snæfell ekki nærri, lokatölur reyndust 88-78 og verðskuldaður sigur Njarðvíkinga staðreynd. Sex leikja sigurganga Snæfells var því á enda og lykilmenn í liðinu sem náðu sér ekki á strik í leiknum. Sveinn Arnar Davíðsson var þeirra besti maður ásamt Quincy Hankins-Cole en hjá Njarðvíkingum bar Cameron Echols af með 41 stig og 16 fráköst og Travis Holmes gerði 29 stig.
Njarðvík: Cameron Echols 41/16 fráköst, Travis Holmes 29/4 fráköst/5 stoðsendingar, Maciej Stanislav Baginski 8, Páll Kristinsson 4/6 fráköst, Elvar Már Friðriksson 2/5 stoðsendingar, Hjörtur Hrafn Einarsson 2/5 stoðsendingar, Óli Ragnar Alexandersson 2/6 stoðsendingar
Karfan.is