Örn í 34. sæti á Spáni
Atvinnukylfingurinn Örn Ævar Hjartarson frá Golfklúbbi Suðurnesja er í 34. sæti á Valle del Este Open mótinu á Spáni en mótið er hluti af Hi5 Pro mótaröðinni. Örn er ytra ásamt þremur öðrum íslenskum kylfingum en þessi fyrsti dagur Arnar var ekki nægilega góður þar sem hann lék á 80 höggum. Örn sagði í samtali við Víkurfréttir að nokkuð hvasst hefði verið á vellinum sem hefði reynst honum dýrkeypt.
,,Þetta er völlur þar sem maður þarf að halda sér í leik af teig og í dag var svolítill vindur og ég ekki nægilega öruggur í mínum aðgerðum. Ég var með fjögur léleg teighögg í dag sem settu mig í 34. sæti. Ég er með járn á teig þegar ég fæ þessar sprengjur, maður reynir að vera spila skynsamlega og það springur í andlitið á mér,” sagði Örn þó kátur í bragði þrátt fyrir frammistöðuna. Hann bætti einnig við að flatirnar á vellinum hefðu verið mun hraðari en þegar Örn lék þennan sama völl fyrr í haust.
,,Ég nota kvöldið í að rífa mig upp og kem ferskur til leiks á morgun,” sagði Örn sem hefur leik í fyrramálið kl. 09:00 á Spáni eða kl. 08:00 að íslenskum tíma.
Örn fékk í dag 11 pör, þrjá skramba, þrjá skolla og einn fugl.
VF-Mynd/ [email protected] - Örn Ævar Hjartarson, GS.