Okkar menn á Evrópumótinu í körfubolta
Flautað til leiks á laugardag í Berlín
Evrópumótið í körfubolta, Eurobasket, hefst með pompi og prakt um helgina og verður þetta í fyrsta sinn sem að íslenskt A-landslið verður með á slíku stórmóti. Strákarnir okkar munu leika sinn riðil í Þýskalandi, nánar tiltekið í Berlín, þar sem búist er við að rúmlega 1000 Íslendingar muni styðja við liðið. Suðurnesjamenn munu ekki láta sig vanta á mótið, en þrír góðkunnir menn úr körfuboltaheiminum verða í eldlínunni. Logi Gunnarsson, Sigmundur Már Herbertsson og Gunnar Einarsson verða á meðal fulltrúa Íslands á mótinu en þó allir í ólíkum hlutverkum.
Fjarlægur draumur að rætast Í A-landsliðshópnum er Njarðvíkingurinn Logi Gunnarsson fastamaður og má búast við að hann verði í veigamiklu hlutverki hjá liðinu ásamt öðrum stjörnum liðsins. Logi kvaðst gríðarlega spenntur fyrir verkefninu þegar Víkurfréttir slógu á þráðinn til hans.
„Það er bara mikil tilhlökkun í manni. Við höfum í rauninni verið að bíða alveg frá þeim degi sem við unnum okkur inn rétt til að fara á Eurobasket, núna er þetta að skella á og við allir vel stemmdir og tilbúnir. Ég er búinn að vera í liðinu í yfir 15 ár og þegar ég byrjaði var þetta ekki einu sinni í umræðunni, þetta var í rauninni bara fjarlægur draumur hjá manni sjálfum sem gutta en kannski ekki neitt sem maður talaði um. Ég fylgist alltaf með þessum stórmótum og það er ótrúlegt að maður sé að fara á gólfið og spila á móti þessum risaþjóðum.“
Logi setur þrist gegn KR í undanúrslitarimmu liðanna á síðasta tímabili
Undirbúningurinn gengið vel
„Ég tel okkur vera á mjög góðum stað sem lið og höfum verið að bæta okkur með hverjum leik. Við áttum góða leiki á móti Hollandi hér heima og okkur gekk vel í stóru móti í Eistlandi og náðum 2. sætinu þar. Þetta eru allt eru allt miklar körfuboltaþjóðir og eru allar að fara á Eurobasket. Þó að þær séu kannski ekki eins stórar og þjóðirnar sem við munum spila við í riðlinum okkar þá gerir þetta okkur tilbúna í átökin. Ég tel okkur geta strítt þessum liðum og jafnvel að vinna einn leik. Ef við trúum því ekki þá gerist það ekki. Kannski vinnum við jafnvel tvo eða fleiri,“ sagði Logi og viðurkennir að fátt annað hafi komist að í sumar en undirbúningur fyrir Berlín.
„Það hefur allt sumarið farið í þetta og í rauninni alveg frá þeim degi sem ég spilaði síðasta leikinn á tímabilinu fyrir Njarðvík. Maður varð að æfa vel fram að þeim tíma sem hópurinn kom saman, þannig að þetta er búið að vera langur tími í undirbúning, bæði persónulega og frá því að liðið byrjaði.“
Deilir herbergi með Jóni Arnóri Logi segist ánægður með andann í liðinu og segir mikinn vinskap vera á milli allra leikmanna, enda væri sennilega erfitt að eyða svo miklum tíma með einhverjum sem erfitt væri að vera í kringum. Hann kveðst ánægður með sambýlismann sinn á keppnisferðalögum.
„Ég er í herbergi með Jóni Arnóri, við byrjuðum saman í liðinu á Norðurlandamótinu árið 2000 og höfum spilað marga leiki saman. Jón er góður vinur minn utan vallar og við náum vel saman. Erum á svipuðum aldri og rólegir fjölskyldumenn, núna á seinni árum allavega.“
Skemmtilegasti tími ferilsins „Já já, allir eru að koma, Birna konan mín, mamma og pabbi, Ægir bróðir minn og síðan kemur margt af frændfólki og vinum,“ segir Logi aðspurður um hvort að einhverjir ætli að fylgja honum út á mótið. Hann hefur verið lengi með landsliðinu og er ekki vafa um hversu mikið gildi þátttaka í mótinu hafi fyrir honum. „Ég nálgast þetta bara sem mest spennandi og skemmtilegasta tíma ferilsins. Ég ætla að njóta hverrar sekúndu við að fá að kljást við þá bestu í heimi.“
Logi ásamt öðrum leikmönnum landsliðs Íslands.
Verður ekki raunverulegt fyrr en ég er kominn til Riga
Það eru fleiri en bara leikmenn sem munu stíga á stokk á Evrópumótinu í körfubolta. Lítið væri leikið ef dómara nyti ekki við og eins og gildir fyrir leikmenn og lið þá eru það aðeins þeir bestu sem komast á stórmót. Njarðvíkingurinn Sigmundur Már Herbertsson verður fyrsti íslenski dómarinn sem fær þann heiður að dæma á Evrópumóti en hann er einn af reynslumestu dómurum landsins. Sigmundur verður þó ekki staddur í Berlín að sinna dómgæslu, heldur mun hann dæma í d-riðli sem leikinn er í Riga í Lettlandi.
„Það er óhætt að segja að ég sé orðinn spenntur þó þetta verði kannski ekki raunverulegt fyrr en ég er kominn til Riga,“ sagði Sigmundur um eftirvæntinguna fyrir mótinu þegar blaðamaður náði af honum tali. Eins og með leikmenn íslenska liðsins hefur Sigmundur verið í ströngum undirbúningi í sumar. „Ég var í Eistlandi með íslenska liðinu í 5 daga, komum svo heim í 2 daga eftir það. Fór svo af stað með íslenska liðinu síðastliðinn miðvikudag til Póllands þar sem ég dæmdi 3 æfingaleiki. Þaðan fór ég beint til Frankfurt í Þýskalandi þar sem allir dómarar sem dæma á EuroBasket mæta. Þar fer fram undirbúningur fyrir mótið og þaðan fer ég beint til Riga í Lettlandi ásamt öðrum dómurum sem dæma í þeim riðli og kem ekki heim fyrr en verkefnum mínum á EuroBasket er lokið.“
Mikill heiður að fá að dæma á stórmóti Sigmundur segist meðvitaður um hversu stórt það er að fá úthlutað verkefni á slíku móti og nefndi að aðeins Ólympíuleikar og Heimsmeistaramót geti talist ofar í virðingarstiganum. „Þetta er gríðarlega stórt. Það eru mörg hundruð FIBA dómarar og stór hópur þeirra kemst aldrei á svona stórmót. Ég hef einu sinni dæmt í A-deild U20 ára karla sem margir telja litla EuroBasket svo maður hefur fengið nasaþefinn af þessu en ekki meira en það.“
Sigmundur er einn af reynslumestu dómurum Íslands.
Ekki allar keppnisþjóðirnar sem eiga dómara á mótinu „Ég hef verið FIBA dómari í 12 ár og eins og farið í ýmis verkefni sem telja í reynslubankann, t.d. A-deild U20 karla sem ég nefndi. Það fer heldur enginn á svona mót sem hefur ekki getuna til þess. Sem dæmi eiga ekki allar þjóðir sem eru á EuroBasket dómara í mótinu svo það er ekki nóg að liðið komist á mótið, dómarar þurfa að hafa getuna til að geta dæmt á þessu sviði. En svo á nú eftir að koma í ljós hversu marga leiki maður dæmir á mótinu.“
Blaðamanni lék forvitni á að vita hvort að dómurum sé verðlaunuð góð frammistaða þegar þeir eru kallaðir til í verkefni og var Sigmundur nokkuð bjartsýnn á að góð frammistaða myndi veita honum fleiri verkefni á þessu kaliberi.
„Ég hef fulla trú á að ef ég geri mitt besta og jafnvel aðeins betur þá muni ég fá enn fleiri tækifæri innan FIBA. Ég á enn 4 ár eftir í alþjóðadómgæslu og það eru oftast bestu árin, komin mikil reynsla í sarpinn.“
Nálægð við leikmenn og þjálfara mun meiri á Íslandi
Þegar talið barst að muninum á því að dæma í Domino´s deildinni og á stóra sviðinu í landsleikjum á erlendri grundu sagði Sigmundur að meginmuninn væri að finna í samfélagsgerðinni sem við búum í.
Hér heima er ég alltaf að dæma hjá sömu leikmönnunum og sömu þjálfurunum, sem maður jafnvel hittir fyrir út í búð. Við þekkjumst öll og nálægðin er því mikil. Leikmenn og þjálfarar kalla bara „Simmi“ þegar þeir vilja athygli. Erlendis er þetta öðruvísi og kannski sökum þess að menn þekkjast ekki og fjarlægðin er meiri. Þá fær maður meira næði við dómgæsluna. Hins vegar eru oftast mikið fleiri áhorfendur á leikjum erlendis og þeir alltaf sýndir í beinni útsendingu. Ég tala nú ekki um í Riga þar sem má reikna með um 11 þúsund áhorfendum á hverjum leik. Þær eru þarna allar Eystrasaltsþjóðirnar og því stutt fyrir fólk að koma og má reikna með mikilli stemningu í húsinu.“
Riðillinn sem Ísland leikur í er svakalegur Að lokum fengum við Sigmund til að spá fyrir um gengi íslenska liðsins á mótinu en Sigmundi verður að nægja að horfa á leiki Íslands í sjónvarpinu þar sem hann verður í Lettlandi. „Nú er ég búinn að sjá alla æfingaleiki þeirra fyrir mótið og ég hef fulla trú á þeim, þeir hafa spilað vel á þessum mótum í Póllandi og Eistlandi, jafnvel án Jóns Arnórs, Hauks og Pavels. Ég geri mér grein fyrir að þessi riðill er svakalegur og ef ég horfi raunsæjum augum á þetta þá ættu þeir ekki að eiga séns í neinn leik. En ég held að þeir gætu alveg strítt þessum liðum eitthvað og vonandi ná þeir að stela einum sigri.“
Passar uppá að menn hugsi vel um sig
Gunnar Einarsson hefur marga fjöruna sopið bæði sem leikmaður Keflavíkur og landsliðsins. Hann verður í nýju hlutverki í Berlín en snemma á árinu gekk Gunnar til liðs við þjálfarateymi landsliðsins sem styrktarþjálfari liðsins.
„Það var haft samband og mér boðið að taka þetta að mér. Auðvitað þáði ég starfið, þetta er mikill lærdómur og mjög gaman að því að vinna með teyminu í kringum liðið og auðvitað með leikmönnunum sjálfum. Á landsliðsæfingum hef ég stýrt upphitun, teygjum og niðurlagi á æfingum. Samhliða þessu passa ég uppá það að æfingaálag sé ekki of mikið þar sem þetta eru margir leikir á fáum dögum og það þarf að passa uppá hvíldina, næringuna og að menn séu að hugsa vel um sig á meðan þessum tíma stendur.“
Förum í alla leiki til þess að vinna þá Spekingar gefa íslenska liðinu ekki mikla möguleika gegn hinum þjóðunum í riðlinum og kannski er full ástæða til. 12 NBA leikmenn eru á meðal leikmanna annarra liða og fjölmargir ef ekki flestir aðrir leikmenn á mála hjá stórum liðum í Evrópu. Gunnar segist raunsær á gengi liðsins en er viss um að íslensku víkingarnir komi til með leggja allt í sölurnar. „Þetta eru stór lið, stór nöfn og óhætt að segja að við erum litla liðið í þessu móti og möguleikarnir okkar ekki ýkja miklir. Við auðvitað förum út í alla leiki til þess að vinna en ætli ég myndi ekki halda að liðin nýti okkar leik til þess að hvíla sína bestu menn og þar af leiðandi gæti vanmat af þeirra hálfu komið sér vel.“
Góður hópur körfuboltakappa á æfingu hjá Gunnari.
Er partur af hópnum
„Ég hef bæði spilað gegn flestum ef ekki öllum og einnig verið í landsliðinu með heldri og reyndustu leikmönnunum. Í raun finnst mér þetta alls ekkert skrítið, er bara partur af hópnum og þekki þetta inni og út. Heilt yfir hafa leikmenn verið mjög duglegir að æfa aukalega bæði í lyftingasalnum og á vellinum enda er þetta hápunktur íslensks körfubolta og væri vitleysa að vera ekki í sínu besta formi þegar þú mætir sterkustu þjóðum í Evrópu,“ sagði Gunnar aðspurður um hvort honum þætti ekkert skrýtið að vera orðinn þjálfari margra leikmanna sem hann hefur sjálfur glímt margoft við á vellinum. En lifir Gunni sig inn í leikina þegar hitinn er orðinn mikill?
„Ég lifi mig inní leikina en verð að halda mig á mottunni þar sem það yrði ansi pínlegt að fá tæknivillu á bekknum. Það er samt spurning hvort ég fái ekki skráðan á mig landsleik ef ég læt dómarann heyra það.“