Eiður Aron til Njarðvíkinga í Lengjudeildina
Eiður Aron Sigurbjörnsson er genginn til liðs við Njarðvík og skrifar undir samning sem gildir að lágmarki út tímabilið 2026. Hafsentinn, sem er 35 ára, bætist þannig í öflugan varnarmannakjarna Njarðvíkur og er vænst mikils af honum á komandi leiktíð.
Eiður er uppalinn í Vestmannaeyjum og hóf meistaraflokksferil sinn hjá ÍBV árið 2008. Árin 2008–2011 lék hann með Eyjamönnum áður en hann hélt á erlenda braut; fyrst til Örebro SK í Svíþjóð, síðan Sandnes Ulf í Noregi og Holstein Kiel í Þýskalandi. Hann sneri aftur heim 2016 og hefur síðan spilað með Val, ÍBV og nú síðast Vestra, þar sem hann hefur undanfarin ár verið meðal bestu hafsenta Bestu deildarinnar og varð bikarmeistari á síðustu leiktíð.
Afrekaskrá Eiðs Arons er glæsileg: hann er þrefaldur Íslandsmeistari með Val (2017, 2018 og 2020) og á einn A-landsleik fyrir Ísland, í æfingaleik gegn Svíþjóð árið 2019, auk sjö U21-landsleikja. Samkvæmt tölum KSÍ hefur Eiður leikið 370 leiki á Íslandi og skorað 21 mark; þar af hafa 247 leikir komið í efstu deild.
Með komu Eiðs bætir Njarðvík við sig mikilli reynslu og leiðtogahæfileikum í vörnina, segir m.a. á vef Njarðvíkur.







