Njarðvíkursigur í mögnuðum leik gegn Stjörnunni - mæta KR í 4ra liða
Haukur Helgi Pálsson tryggði Njarðvíkingum sigur þegar hann setti niður tvö vítaskot þegar 4 sekúndur voru til leiksloka í fimmta leik þeirra við Stjörnuna í 8-liða úrslitum Domino’s deildarinnar í körfubolta í Garðabæ í kvöld. Lokatölur eftir æsispennandi leik urðu 79-75 þar sem úrslitin réðust á lokamínútunni.
Leikurinn var hnífjafn allan tímann en Njarðvíkingar voru þó nær alltaf með forystu. Þeir voru gríðarlega grimmir allan leikinn en útslagið gerði magnaður þristakafli þeirra þegar um 5 mín. voru eftir í lokafjórðungnum. Þá skoraði Oddur Rúnar Kristjánsson tvo þrista í röð og í framhaldinu mættu tveir aðrir þristar hjá liðinu, annar þeirra frá Loga Gunnarssyni. Stjörnumenn gáfust ekki upp og minnkuðu muninn í tvö stig þegar 40 sekúndur voru eftir 75-77. Þegar fimmtán sekúndur voru til leiksloka kom upp umdeilt atvik þegar leikmenn beggja liða börðust um boltann undir körfu Njarðvíkur. Dómararnir tóku ákvörðun eftir að hafa fengið að skoða sjónvarpsmyndir af atvikinu. Njarðvík fékk boltann og náðu að halda boltanum þangað til um 5 sek. voru eftir en þá var brotið á Hauki Helga sem eins og fyrr segir, kláraði dæmið. Þegar sérfræðingar Stöðvar 2 skoðuðu þetta atvik betur eftir leik töldu þeir greinilegt að boltinn hafi farið af Hirti Njarðvíkingi útaf og þannig hafi Stjörnumenn átt að fá boltann. „En það voru auðvitað mörg vafaatriði í leiknum,“ sagði Kjartan Stöðvar 2 lýsandi í skemmtilegri greiningu eftir leikinn.
„Ég var ekki smeykur, þetta var allan tímann öruggt. Við vorum betri en þeir,“ sagði Haukur Helgi í viðtali við Stöð 2 eftir leikinn þegar hann var spurður út í vítaskotin í lokin og bætti því við að hann hlakkaði til að mæta KR.
Al’lonzo Coleman skoraði 24 stig fyrir Stjörnuna en hjá Njarðvík skoraði Jeremy Martez A. 20 stig, Haukur Helgi 19 og Oddur Rúnar 13 stig.
Sjá veglega umfjöllun um leikinn á karfan.is