Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Njarðvíkingar sigruðu eftir framlengingu - Keflavík vann í Þorlákshöfn
Logi á fleygiferð í leiknum gegn Hetti. VF-mynd/pállorri.
Laugardagur 17. október 2015 kl. 09:24

Njarðvíkingar sigruðu eftir framlengingu - Keflavík vann í Þorlákshöfn

Njarðvík lenti heldur betur í kröppum dansi gegn nýliðum Hattar í Ljónagryfjunni í Domino's deildinni í körfubolta í gærkvöldi.  Leikurinn fór í framlengingu þar sem Njarðvík hafði betur 76-74. Logi Gunnarsson reyndist ansi dýrmætur á lokakafla venjulegs leiktíma.

Eins og gefur til kynna þá var leikurinn ansi jafn og skiptust liðin á að hafa forystu alls 11 sinnum í leiknum. Reynsla Njarðvíkurliðsins vó þungt í þessum leik og tvö stig í sarpinn sem gefur liðinu enn meira sjálfstraust fyrir komandi átök.

Logi Gunnarsson var atkvæðamestur í liði heimamanna með 17 stig og Marquise Simmons gerði 14 stig. Í liði gestanna var Tobin Carberry yfirburðamaður en hann gerði 30 stig.
 
Keflavík gerði góða ferð í Þorlákshöfn og sigraði heimaenn 101-104 Þórsarar byrjuðu leikinn af miklum krafti og virtust ætla að stinga gestina frá Keflavík hreinlega af. En eins og flestir körfuknattleiksunnendur vita þá er aldrei hægt að afskrifa Keflavík og það átti eftir að koma í ljós. Liðið vann sig hægt og bítandi inn í leikinn en Þórsarar voru ávallt skrefinu á undan. Það var hins vegar undir lok leiksins að Keflavík seig frammúr og tók bæði stigin.
 
Earl Brown Jr. var stigahæstur Keflvíkinga með 23 stig, Magnús Þór Gunnarsson var með 21 stig og Magnús Már Traustason bætti við 17 stigum. Vance Michael Hall skoraði 31 stig fyrir Þór.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024