Njarðvík vann Keflavík og er efst í Subway-deild kvenna
Nágrannaliðin Njarðvík og Keflavík áttust við í Ljónagryfjunni í kvöld í Subway-deild kvenna í körfuknattleik. Eins og svo oft áður er erfitt að spá fyrir um úrslit þegar þessi lið mætast en Njarðvíkingar, sem hafa verið að standa sig betur í deildinni í ár, höfðu að lokum góðan sigur og eru nú einar og efstar í deildinni.
Njarðvík - Keflavík 75:65
(16:22, 25:14, 14:11, 20:18)
Gestirnir byrjuðu betur í kvöld og leiddu eftir fyrsta leikhluta (16:22) en Njarðvíkingar náðu góðri rispu í seinni hluta annars leikhluta þegar þær gerðu níu stig í röð og sneru stöðunni úr 29:34 í 38:34. Staðan í hálfleik 41:36 fyrir Njarðvík. Seinni hálfleikur var tiltölulega jafn og í honum jókst munurinn lítillega en gestirnir náðu aldrei að ógna verulega.
Svo fór að lokum að tíu stiga heimasigur tryggir Njarðvíkingum einum efsta sætið því Valur vann Fjölni á sama tíma og eru bæði lið núna tveimur stigum á eftir toppliði Njarðvíkur.
Aliyah Collier hélt uppteknum hætti og fór fyrir liði Njarðvíkur, hún var með 29 stig, fimmtán fráköst og sex stoðsendingar auk þess að vera með 35 framlagspunkta. Næst kom Diane Diéné með tólf stig og tíu fráköst og Lavína Joao Gomes De Silva var með ellefu stig, tólf fráköst, sjö stoðsendingar og tuttugu framlagspunkta.
Hjá gestunum var Anna Ingunn Svansdóttir stigahæst með 23 stig og þrjú fráköst, Daniela Wallen var með 22 stig, ellefu fráköst, fjórar stoðsendingar og 25 framlagspunkta.