Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fimmtudagur 25. mars 2004 kl. 20:19

Njarðvík úr leik, Friðrik hættur!

Snæfellingar tryggðu sér farseðil í úrslit Íslandsmótsins í körfuknattleik með 91-89 sigri á Njarðvíkingum í þriðja leik liðanna í undanúrslitunum.

Njarðvíkingar mætu til leiksins með bakið upp að veggnum það sem þeir höfðu tapað fyrri leikjunum tveimur, en sigur í kvöld hefði getað opnað einvígið upp á gátt.

Njarðvíkingar léku ákaflega vel framan af leik og leiddu 18-24 eftir fyrsta leikhluta og 29-50 í hálfleik. Seinni hálfleikur hófst á svipuðum nótum þar sem Njarðvíkingar héldu forskotinu og þegar 8 mínútur voru til leiksloka höfðu þeir 25 stiga forskot.
Þá upphófst kafli sem Friðrik Ragnarsson, þjálfari Njarðvíkur, vill meina að hafi verið versta dómgæsla sem hann hefur orðið vitni að á löngum ferli, en Kristinn Óskarsson og Aðalsteinn Hjartarson dæmdu leikinn.
„Ég hef bara aldrei lent í svona nokkru.“, sagði Friðrik. „Þetta var hreinn viðbjóður! Snæfell fékk alltaf dæmda villu og boltann aftur ef þeir nýttu ekki sóknirnar. Þeir fengu 29 vítaskot í seinni hálfleik einum. Þeir gætu unnið Lakers með svona dómgæslu, og þú mátt hafa það eftir mér!“
Leikur Njarðvíkinga versnaði á þessum kafla þar sem þeir voru full óþolinmóðir í sókninni og létu mótlætið í vörninni fara með sig. Snæfellingar gengu á lagið og kreistu út sigur í lokin og munu mæta Grindavík eða Keflavík í úrslitum.

Bárður Eyþórsson, þjálfari Snæfells, var ekki á sama máli og Friðrik varðandi dómgæsluna og sagði að Njarðvíkingar þyrftu ekki að vera ósáttir við dómgæsluna þegar litið er á leikinn í heild sinni. „Við vorum kannski að fá nokkur vafaatriði í lokin, en þetta skiptist jafnt í heildina. Þeir bara hættu að sækja á okkur eins og hafði gerst í hinum leikjunum og við vorum í fimm mínútur að jafna leikinn eftir það. Ég held að við höfum einfaldlega viljað sigurinn meira.“

Njarðvíkingar eru því komnir í sumarfrí, fyrr en ætlað hafði verið, og munu sennilega mæta til leiks að ári með nýjan stjóra í brúnni. „Samningur minn rennur út eftir tímabilið“, sagði Friðrik í samtali við Víkurfréttir, „Og ég býst fastlega við því að hafa stýrt liðinu í síðasta sinn í bili.“

Tölfræði leiksins má finna hér

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024