Njarðvík situr á toppi Subway-deildar kvenna
Njarðvík heldur áfram sigurgöngu sinni í Subway-deild kvenna en í gær léku þær gegn Fjölni á útivelli. Grindvíkingar tóku á móti Breiðabliki og unnu sinn þriðja leik á tímabilinu.
Fjölnir - Njarðvík 64:71
(15:13, 21:18, 9:18, 19:22)
Heimalið Fjölnis byrjaði leikinn betur í gær og náðu sex stiga forystu um miðbik fyrsta fjórðungs (11:5). Njarðvíkingar minnkuðu þó muninn í tvö stig fyrir annan leikhluta (15:13). Njarðvíkingar skoruðu sjö fyrstu stig annars leikhluta og sneru leiknum sér í vil (15:20) en heimastúlkur komu sér á ný inn í leikinn og leiddu með fimm stigum í hálfleik (36:31).
Njarðvíkingar hófu seinni hálfleikinn mun betur en Fjölnir og settu niður fyrstu átta stigin í seinni hálfleik. Þá var staðan orðin 36:39, Njarðvík komið í forystu sem þær létu aldrei af hendi þótt leikurinn væri jafn út leiktímann. Fjölnir náði að narta í hælana á Njarðvík en Njarðvík hélt út og skilaði heim góðum sigri (64:71).
Aliyah Collier var sem fyrr öflug í liði Njarðvíkur með 28 stig, fjórtán fráköst og fimm stolna bolta. Lavina De Silva gerði átján stig og tók nítján fráköst.
Frammistaða Njarðvíkinga: Aliyah A'taeya Collier 28/14 fráköst/5 stolnir, Lavína Joao Gomes De Silva 18/19 fráköst, Kamilla Sól Viktorsdóttir 10, Diane Diéné Oumou 6/10 fráköst, Lára Ösp Ásgeirsdóttir 5, Helena Rafnsdóttir 2, Vilborg Jonsdottir 2/7 fráköst, Krista Gló Magnúsdóttir 0, Júlía Rún Árnadóttir 0, Eva María Lúðvíksdóttir 0, Júlia Scheving Steindórsdóttir 0, Ása Böðvarsdóttir-Taylor 0.
Grindavík-Breiðablik 90:75
(29:24, 24:12, 19:14, 18:25)
Robbi Ryan var allt í öllu í mikilvægum leik Grindavíkur og Breiðabliks en fyrir leikinn höfðu Grindvíkingar fjögur stig en Blikar tvö. Frammistaða Ryan var ótrúleg, 38 stig, ellefu fráköst og fimm stoðsendingar, og var hún útnefnd lykilleikmaður níundu umferðar Subway-deildar kvenna af netmiðlinum Karfan.is.
Leikurinn byrjaði fjörlega, Ryan opnaði með þrist og gestirnir svöruðu í sömu mynt. Fyrstu níu stig Grindvíkinga voru þriggja stiga körfur Ryan og Jenný Geirdal Kjartansdóttir tók við og setti einn þrist til viðbótar (12:13).
Leikurinn var jafn til að byrja með en heimaliðið seig fram úr og hafði sautján stiga forystu í hálfleik (53:36). Í þiðja leikhluta jókst forystan í 22 stig (72:50) og leyfðu Grindavíkingar sér að taka því rólega í síðasta fjórðungnum en höfðu að lokum mikilvægan fimmtán stiga sigur (90:15)
Frammistaða Grindvíkinga: Robbi Ryan 38/11 fráköst/5 stoðsendingar, Hulda Björk Ólafsdóttir 11/4 fráköst, Jenný Geirdal Kjartansdóttir 10/8 fráköst, Edyta Ewa Falenzcyk 9/9 fráköst, Thea Ólafía Lucic Jónsdóttir 6/5 fráköst, Anna Margrét Lucic Jónsdóttir 5, Hekla Eik Nökkvadóttir 4/6 stoðsendingar, Arna Sif Elíasdóttir 4/5 fráköst, Natalía Jenný Lucic Jónsdóttir 3, Aþena Þórdís Ásgeirsdóttir 0, Sædís Gunnarsdóttir 0.