Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Njarðvík knúði fram sigur í framlengingu
Flottur leikur hjá Nicolas Richotti sem gerði 27 stig, tók fimm fráköst og gaf sjö stoðsendingar. Myndir úr safni Víkurfrétta
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 28. mars 2022 kl. 11:08

Njarðvík knúði fram sigur í framlengingu

Þrátt fyrir að komast ekki í úrslitakeppni Subway-deildar karla í ár minntu ÍR-ingar Njarðvíkinga rækilega á að ekkert er öruggt í körfuboltanum. ÍR var hársbreidd frá sigri í gær þegar Njarðvík mætti í Breiðholtið en ÍR leiddi allan fyrri hálfleik og hafði átta stiga forystu eftir tvo leikhluta. Njarðvíkingar snéru leiknum þegar þeir sýndu hins vegar mikla yfirburði í þriðja leikhluta sem þeir unnu með fimmtán stiga mun en ÍR náði að jafna leikinn í þeim fjórða og því þurfti að grípa til framlengingar. Á lokasprettinum reyndist Njarðvík sterkari aðilinn og hafði að lokum fjögurra stiga sigur, 105:109.

ÍR - Njarðvík 105:109

(31:23, 19:19, 13:28, 28:21, 14:18)

Heimamenn börðust vel frá fyrstu mínútu og náðu átta stiga forystu í fyrsta leikhluta (31:23). Njarðvíkingar náðu að setja stopp á sóknarleik ÍR í öðrum leikhluta en sóknarleikur þeirra fór ekki almennilega í gang fyrr en í þriðja leikhluta þar sem Njarðvík lagði grunninn að sigrinum. Njarðvík leiddi því með sjö stigum fyrir fjórða leihluta (63:70). ÍR-ingar sóttu að Njarðvík í fjórða leikhlut en Njarðvíkingar héldu forystunni allt fram á síðustu sekúndu þegar ÍR náði að jafna leikinn með þriggja stiga körfu á síðustu sekúndu (91:91). Njarðvíkingar höfðu betur í framlengingu þar sem Logi Gunnarsson setti niður tvo þrista og var með stolinn bolta.

Logi gefst aldrei upp – frábær leiðtogi.

Njarðvíkingar eiga möguleika á að standa uppi sem deildarmeistarar í ár en þeir eru sem stendur í efsta sæti Subway-deildar karla með 32 stig. Þór Þorlákshöfn er einnig með 32 stig en á hins vegar að leika gegn Tindastóli í dag. Á fimmtudag fer lokaumferð deildarkeppninnar fram og þá taka Njarðvíkingar á móti grönnum sínum úr Keflavík, Grindvíkingar taka hins vegar á móti Þórsurum á sama tíma svo baráttan um deildarmeistaratitilinn verður spennandi fram á lokamínútu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Frammistaða Njarðvíkinga: Nicolas Richotti 27/5 fráköst/7 stoðsendingar, Dedrick Deon Basile 24/6 fráköst/8 stoðsendingar, Mario Matasovic 22/12 fráköst, Logi Gunnarsson 16, Fotios Lampropoulos 13/12 fráköst, Ólafur Helgi Jónsson 4, Maciek Stanislav Baginski 3, Rafn Edgar Sigmarsson 0, Jan Baginski 0, Elías Bjarki Pálsson 0.

Tengdar fréttir