Már hefur lokið leik á Ólympíumótinu
Sundmaðurinn Már Gunnarsson komst ekki upp úr undanriðlum í lokagrein sinni, flugsundi, á Ólympíuleikunum í Tókýó í nótt. Hann hefur því lokið leik í þetta sinn og í samtali við RÚV eftir sundið sló Már á létta strengi og sagði m.a.:
„Tilfinningin er stórundarleg en hún er hrikalega góð. Þetta verkefni sem er búið að vera efst á dagskránni í svona rosalega, rosalega langan tíma er nú búið. Minni vakt er hér lokið, þetta síðasta sund sem ég synti hérna var að mínu mati of hægt. En aftur á móti held ég að þreytan sé farin að segja til sín, maður er búinn að synda upp á hvern einasta dag í þrjár vikur. Ég er búin að taka mér fjögurra daga frí í ár. Aðalgreinin var á laugardaginn, þannig að ég er ánægður með að klára þessa grein. Klára þetta mót, án þess að brjóta neitt. Ég er ekki með brotna fingur, þannig að ég get farið heim og spilað á píanóið. Það er það sem skiptir máli.“
Nú þegar þessu verkefni er lokið hjá Má tekur það næsta við en Már hefur greint frá því að hann sé að vinna að lagi fyrir Söngvakeppnina. Það verður því skemmtilegt að fylgjast með því hvort þessi fjölhæfi lista- og íþróttamaður muni keppa fyrir Íslands hönd á fleiri vígstöðvum en í sundlauginni í ár.